Bretar verða sjálfstæð fiskveiðiþjóð
Fiskveiðar í breskri lögsögu eru viðkvæmt þrætuepli í brexit-viðræðunum. Fréttir bárust á dögunum um að Bretar væru til viðtals um þriggja ára umþóttunartíma
Enn einu sinni dregur til tíðinda í langdregnum viðræðum fulltrúa Breta og ESB um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, brexit, í vikunni. Leiðtogaráð ESB kemur saman fimmtudaginn 15. október til að leggja mat á stöðuna og móta stefnu á lokavikunum fram til 31. desember 2020 þegar viðskilnaðarsamningur ESB og Breta rennur sitt skeið og við tekur tími með viðskiptasamningi eða engum samningi.
Fiskveiðar í breskri lögsögu eru viðkvæmt þrætuepli í viðræðunum. Fréttir bárust á dögunum um að Bretar væru til viðtals um þriggja ára umþóttunartíma, það er að ESB-þjóðirnar átta sem stunda veiðar í breskri lögsögu fengju þann tíma til að draga saman seglin stig af stigi.
Samningamennirnir David Frost og Michel Barnier.
Belgar segjast ekki bundnir af neinu slíku. Fimmtíu flæmskir sjómenn frá Brügge eigi „eilífan rétt“ til fiskveiða við Bretland. Loforð um þetta, Privilegie der Visscherie, hafi verið gefið árið 1666 þegar Brügge var hluti Suður-Niðurlanda undir stjórn Spánverja. Karl II. konungur hefði á þennan hátt þakkað fyrir gestrisni sem hann naut þegar skotið var yfir hann skjólshúsi á óvissutíma sem ríkti eftir að faðir hans Karl I. var hálshöggvinn og hann komst sjálfur til valda.
Þegar belgíski sendiherrann gagnvart ESB hreyfði þessu máli á dögunum vissu menn ekki hvort honum væri alvara eða ekki en hitt vissu allir að hér væri brugðið ljósi á einn viðkvæmasta þátt viðræðnanna við Breta. Samskipti þeirra og nágrannaþjóðanna handan Ermarsunds væru löng og ekki alltaf friðsamleg.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, sagði við sendiherra ESB-landanna í fyrri viku að þeir yrðu að sýna „raunsæi“ við mat á aðgangi ESB-skipa að fiskimiðum við Bretland.
Frakkar hafa helst haldið fram kröfunni um fiskveiðar í breskri lögsögu eftir brexit. Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakka, gaf þó til kynna í útvarpsviðtali sunnudaginn 11. október að Frakkar kynnu að sætta sig við málamiðlun í fiskveiðideilunni. Hann viðurkenndi að staðan gagnvart Bretum breyttist eftir brexit og allt yrði gert til að tryggja með samningum hagsmuni franskra sjómanna, bænda og borgara almennt.
Fréttaskýrendur segja að í þessum orðum megi greina nýjan franskan tón. David Frost, aðalsamningamaður Breta, segir að Bretar vilji árlegar viðræður við ESB um fiskveiðikvóta eins og þeir eigi við Norðmenn. Nýlega rituðu Bretar og Norðmenn undir fiskveiðisamning.
Ástæða er fyrir íslensk stjórnvöld til að fylgjast náið með öllu sem snýr að fiskveiðimálum vegna brexit. Með sjálfstæði Breta bætist við nýr þátttakandi í viðræðum um flökkustofna eins og makríl. Skotar hafa ekki alltaf talað hlýlega um makrílveiðar íslenskra sjómanna. Kröfur þeirra um refsiaðgerðir af hálfu ESB í garð Íslendinga vegna makrílsins fara ekki leynt. Nú flytjast þær úr ESB-þinginu í breska þingið.