23.2.2020 12:10

Bretar sækja gegn ESB

Ástæðulaust er að hafa áhyggjur af stöðu Breta gagnvart ESB í komandi viðræðum um fríverslun. Við Íslendingar vitum af langri reynslu að þeir eru harðir í horn að taka.

Nú í vikunni ákveður breska ríkisstjórnin samningsumboð sitt gagnvart ESB. David Frost, gamall vinur Boris Johnsons forsætisráðherra, leiðir 40 manna samninganefnd Breta sem ætlað er að ljúka störfum fyrir árslok í samræmi við nýsamþykkt lög.

Fyrir nokkrum dögum flutti Frost 40 mínútna ræðu í ULB-háskólanum í Brussel. Hann útlistaði áform Breta. Þeir myndu aldrei samþykkja kröfu ESB um level playing field, það er sambærileg starfsskilyrði fyrirtækja í Bretlandi og á sameiginlega EES-markaðnum. Bretar áskilja sér rétt til að ákveða sjálfir hvort fyrirtæki í Bretlandi fái að njóta forskots í samkeppni (með lágum sköttum og litlu regluverki) eða sæta strangari reglum en gilda á sameiginlega markaðnum.

Boris-with-new-passport-1245790Bretar fagna þv í að fá aftur bláa vegabréfið sitt eftir úrsögnina úr ESB.

Samhliða því sem breska stjórnin leggur lokahönd á samningsumboðið er háð harðnandi áróðursstríð milli Breta og Brusselmanna. Bretar segja að upplausn ríki innan ESB þar sem aðildarríkin komi sér ekki saman um hvers eigi að krefjast af Bretum. Þetta sé í hróplegri andstöðu við hve snurðulaust og skipulega sé gengið til verks innan breska stjórnkerfisins. Vilja Bretar greinilega sýna á sér aðra hlið en frá júní 2016 til 12. desember 2019 þegar allt brexit-ferlið var niðurlægjandi fyrir þá.

Nú segja Bretar að Brusselmenn láti gömul deilumál eins og um Elgin Marbles trufla sig. Þar er vísað til krafna Grikkja um að Bretar skili þeim safni höggmynda, marmaraáletrana og brota úr Meyjarhofinu (Parþenon) á háborginni Akrópólis í Aþenu. Elgin lávarður flutti minjarnar tiol Bretlands á árunum 1801 til 1805.

David Frost sagði að Bretar gætu sætt sig við fríverslunarsamning við ESB með svipuðu sniði og sambandið hefði gert við Kanada. Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, sagði það ekki vera í boði. Bretar sögðu þá að ekkert væri að marka fyrri orð Brusselmanna um að Kanada-samningur stæði Bretum til boða.

Daniel Hannan sat á ESB-þinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn til 31. janúar 2020. Hann barðist gegn aðild að ESB. Í grein á vefsíðunni The Telegraph sunnudaginn 23. febrúar boðar hann pólitísk átök innan ESB vegna samninganna við Breta. Nú njóti Boris Johnson og stjórn hans góðs meirihluta á þingi sem geri honum kleift að hrinda frjálslyndri efnahagsstefnu í framkvæmd. Hann hafi betri stjórn á framvindu mála í Bretlandi en stjórnir ESB-landanna 27 hafi innan eigin landa. Á árinu 2021 verði efnt til þingkosninga í að minnsta kosti sex ESB-löndum, þar á meðal Þýskalandi.

Ástæðulaust er að hafa áhyggjur af stöðu Breta gagnvart ESB í komandi viðræðum um fríverslun. Við Íslendingar vitum af langri reynslu að þeir eru harðir í horn að taka. Þorskastríðin sanna það og einnig ICESAVE-deilan.

Þessi gamalkunnu ágreiningsefni okkar við Breta eru þó einnig til marks um að þeir fara auðveldlega fram úr sér, beita meira offorsi en góðu hófi gegnir og hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Staðreyndir sem þessar spilla þó ekki góðu og nánu sambandi Íslendinga og Breta.