27.2.2021 11:22

Bretar hugsa sér til hreyfings

Spurningin er hvort Bretar geti ferðast til annarra landa í sumar og hvert þeir eigi að fara leggi þeir á annað borð land undir fót.

Í breska blaðinu The Daily Telegraph (DT) birtist í dag (27. febrúar) grein þar sem höfundurinn veltir fyrir sér hvort Bretar geti ferðast til annarra landa í sumar og hvert þeir eigi að fara leggi þeir á annað borð land undir fót.

Minnt er á að um þessar mundir séu fyrirmæli breskra yfirvalda afdráttarlaus, enginn megi að fara til útlanda nema hann eigi brýnt erindi. Fari menn úr landi verða þeir að sæta sýnatöku fyrir heimferð og annað hvort fara í tíu daga sóttkví heima hjá sér (skyldaðir til sýnatöku á öðrum og áttunda degi, kostnaður 210 pund, 38.123 ISK) eða, komi þeir frá rauðmerktu landi, dvelja í tíu daga á hóteli samþykktu af ríkinu og greiða 1.750 pund, 318.000 ISK.

Nú hafa bresk rauðmerkt 33 lönd, þ. á m. Portúgal, Sameinuðu furstadæmin og Suður-Afríka. Gefið er til kynna að Spánn og Bandaríkin kunni að bætast á þennan lista.

Þannig er staðan í Bretlandi núna. Boris Johnson forsætisráðherra kynnti á dögunum áætlun um að í fyrsta lagi 17. maí kynni Bretum að verða leyft að ferðast . Bresk stjórnvöld hafa falið verkefnisstjórn, Global Travel Taskforce, að staðfesta 12. apríl hvort óhætt sé að heimila ferðalög frá 17. maí.

Http-_cdn.cnn.com_cnnnext_dam_assets_200604093845-uk-airport-arrival-1-1Í grein DT lítur höfundur til dagsetningarinnar 21. júní. Hann gefur sér að bólusetning hafi skilað frábærum árangri í Bretlandi, tilvikum, dauðsföllum og sjúkrahúsdvölum hafi snarfækkað alls staðar í landinu, ný veiruafbrigði hafi ekki náð sér á strik og daglegt tekið á sig tiltölulega venjulegan blæ. Ríkisstjórnin hafi framkvæmt allt samkvæmt áætlun sinni og í öðrum löndum sé þróunin á sama veg. Þá sé unnt að opna landamærin og grænmerkja lönd sem megi heimsækja í samræmi við ferðaheimildir.

Hann gefur sér ákveðnar forsendur og nefnir sex áfangastaði utan Bretlands sem hann telur líklegt að verði öruggir til sumarferðalaga:

Grikkland, Ísland, Seychelles, Ísrael, eyjar í Karabíahafi, eyjarnar Mallorca, Menorca, Ibiza, Formentera við Spán og raunar einnig Madeira, Azoreyjar og Kanaríeyjar.

Hann segir Ísland skora hátt á græna listanum vegna þess hve vel sé staðið að COVID-vörnum. Þá hafi einnig verið kynntar nýjar reglur sem auðveldi þeim sem hafi alþjóðlega viðurkennd bólusetningarvottorð að koma til landsins.

Það eru fleiri sem haga aðgerðum í samræmi við það sem Boris Johnson boðaði og má þar nefna Íslandsstofu en Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu, útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstof, segist hafa orðið vör „við mikla aukningu í leitarfyrirspurnum [Breta] á netinu eftir áfangastöðum og þar á meðal Íslandi“. (Morgunblaðið 27. febrúar.)

Í sömu frétt blaðsins segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, áætlað í þjóðhagsspá bankans að hingað komi 400 þúsund til ein milljón erlendra ferðamanna á ár. Skarphéðinn Steinarsson ferðamálastjóri segir Ferðamálastofu áætla að hingað komi 600 þúsund til ein milljón erlendra ferðamanna í ár.

Vonandi ganga allar þessar áætlanir eftir – vegi veirunnar veit þó enginn.