13.11.2022 10:12

Bretar herða tökin

Robert Jenrick, innflytjendamálaráðherra Breta, segir ) að í mannúðarmálum verði einnig að vera rými fyrir heilbrigða skynsemi.

Um helgina hefur enn einu sinni sannast hve virkt eftirlit með landamærunum á Keflavíkurflugvelli skiptir miklu. Þá er enn einu sinni staðfest að íslensk stjórnvöld hafa heimild innan Schengen-reglna að útiloka ákveðna einstaklinga eða hópa manna frá að koma til landsins og snúa þeim tafarlaust við á landamærunum.

Í fréttum 12. nóvember sagði að 26 einstaklingum hefði verið vísað úr landi að morgni þess dags og sunnudags 13. nóvember „vegna tengsla þeirra við vélhjólagengi“. Var vísað til heimildarmanna sem sögðu mennina hafa komið „til landsins til að sækja veisluhöld“.

Útlendingastofnun tók ákvörðun um þessar brottvísanir að fengnu áhættumati embættis ríkislögreglustjóra sem sendi liðsauka til lögreglunnar á Suðurnesjum til að standa að framkvæmd aðgerðarinnar.

Hér hefur oftar en einu sinni verið hvatt til þess að landamæravarslan sjálf við komuna í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli verði hert og meiri áhersla lögð á greiningu farþega sem þangað koma svo að unnt sé að bregðast skjótt við og fá tafarlaust áhættumat lögreglu.

Þetta verður best gert með því að gera embætti ríkislögreglustjóra beint og milliliðalaust ábyrgt fyrir landamæravörslunni og allt greiningarstarf verði stóreflt tæknilega og samkvæmt þeim samstarfsleiðum sem opnar eru vegna Schengen-aðildarinnar. Þá verði héraðssaksóknara falin saksókn í þessum málum.

TELEMMGLPICT000231528041_trans_NvBQzQNjv4BqM37qcIWR9CtrqmiMdQVx7Dy48PIabkzcGtWwIQPnDAcTugir þúsunda ólöglegra innflytjenda fara yfir Ermarsund frá Frakklandi til Bretlands.

Stundum sést því haldið fram að óskynsamlegt hafi verið að fara ekki að frumkvæði Breta og skipa Íslandi utan Schengen-svæðisins í lok síðustu aldar. Í þessum orðum felst að Bretar séu betur settir en aðrar Evrópuþjóðir þegar litið sé til straums innflytjenda til landsins.

Þetta er einfaldlega alrangt. Eftir að Bretar afnámu, vegna Brexit, reglur um frjálsa för fólks, eins og gilda hér vegna EES-aðildarinnar, lentu þeir í stór vandræðum vegna skorts á vinnuafli. Eftir að þeir sögðu skilið við ESB til að stjórna betur löglegu og ólöglegu flæði fólks til lands síns misstu þeir endanlega stjórn á ólöglega flæðinu eins og fréttir af stórhættulegum ferðum farandfólks yfir Ermarsundið sýna, rúmlega 40.000 manns hafa farið þessa leið til Bretlands í ár.

Robert Jenrick, innflytjendamálaráðherra Breta, segir í The Telegraph í dag (13. nóv.) að í mannúðarmálum verði einnig að vera rými fyrir heilbrigða skynsemi, til dæmis eigi ólöglegir innflytjendur ekki að geta gert kröfu til að búa á lúxus-hótelum. Aðstæður í Bretlandi séu næstum alltaf betri en í nágrannalöndunum. Þetta sé hluti skýringarinnar á því að Bretland sé talið æskilegt aðsetur af farandfólki sem fer um Evrópu í leit að bestu „hælisaðstæðum“.

Ráðherrann segir að hætta verði að bjóða „hótel Bretland“ og vísa fólki frekar í einfaldar vistarverur sem uppfylli grunnkröfur án þess að vera sérstakt aðdráttarafl.

Hvernig er jafnvægi milli mannúðarþrár og heilbrigðrar skynsemi háttað í útlendingamálum og framkvæmd þeirra hér? Liggur fyrir mat á því?