17.7.2020 9:50

Bretar afhjúpa netglæpi Rússa

Viðbrögðin frá Kremlarkastala voru eftir bókinni. Þar sagði talsmaður Rússlandsforseta að hann vissi ekkert um þetta mál annað en að Rússar væru hafðir fyrir rangri sök.

Fyrir áhugamenn um fjölþátta ógnir (hybrid threats) annars vegar og tölvu- eða netárásir (cyberattacks) hins vegar er forvitnilegt að kynna sér inntak og bakgrunn tveggja frétta frá Bretlandi í gær (16. júlí).

Fréttin um fjölþátta ógnir snerti þingkosningarnar í Bretlandi í desember 2019. Breski utanríkisráðherrann fullyrti að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á skoðanir kjósenda með upplýsingafölsunum og blekkingu.

Fréttin um tölvuárásina sneri að tilraunum til innbrots í tölvukerfi rannsóknar- og vísindastofnana í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Markmiðið var að stela upplýsingum um gerð bóluefnis gegn COVID-19.

Breska netöryggisstofnunin birti upplýsingar um tölvuárásina og sagði unnt að rekja upptökin til rússneskra tölvuþrjóta sem starfa í skjóli Vladimirs Pútins Rússlandsforseta verndara rússnesku öryggislögreglunnar.

Viðbrögðin frá Kremlarkastala voru eftir bókinni. Þar sagði talsmaður Rússlandsforseta að hann vissi ekkert um þetta mál annað en að Rússar væru hafðir fyrir rangri sök.

Að breska stjórnin upplýsi um þessi mál á þann hátt sem gert var er í sjálfu sér nýmæli. Vestrænar öryggisstofnanir láta almennt lítið í sér heyra opinberlega um mál af þessu tagi þar sem með birtingu upplýsinga miðli þær vitneskju til árásaraðilans um greiningar- og varnarmátt sinn.

Unnamed-1_trans_NvBQzQNjv4BqqVzuuqpFlyLIwiB6NTmJwfSVWeZ_vEN7c6bHu2jJnT8Það er á ábyrgð einstakra ríkja að greina árásir af þessu tagi og ákveða hvort þau birti nafn á sökudólgnum opinberlega. Um margt er þagað en þegar árásin er þess eðlis að fjöldi stofnana verður fyrir henni hlýtur að verða skýrt frá henni, ekki síst þegar gögnin sem reynt er að stela snerta baráttu við heimsfaraldur.

Að rússnesk yfirvöld leggist svo lágt að telja sér nauðsynlegt að beita aðferðum sem þessum í baráttunni við COVID-19 er enn eitt dæmið um hve efnahagslega veikburða rússneska ríkið er orðið. Á sama tíma og rússneskir vísindamenn láta opinberlega eins og þeir séu marktækir í kapphlaupinu um framleiðslu á bóluefni vinna aðrir starfsmenn Pútíns að tölvuinnbrotum í von um að ná forskoti með þjófnaði.

COVID-19-faraldurinn hefur reynst Rússum dýrkeyptur í öllu tilliti. Helsta tekjulind þeirra er sala á jarðefnaeldsneyti. Eftirspurn og verð hefur snarlækkað. Við þetta skerpist sýn manna á þá staðreynd hve rússneska stjórnin er annars vegar háð Kínverjum efnahagslega og leifunum af kjarnorkuherafla Sovétríkjanna hins vegar. Í krafti þessara leifa gerir Pútin kröfu um að teljast gjaldgengur meðal stjórnenda stórvelda.

Pútín hefur enn mátt til að beita sér með leynd í netheimum án þess að vilja kannast við óhæfuverkin opinberlega. Dæmin sem skýrt var frá í Bretlandi 16. júlí sýna það.