Breska þingið setur skilyrði
Breska þingið samþykkti að kvöldi 29. janúar að ekki ætti að yfirgefa ESB án samnings og ekki ætti að yfirgefa ESB með þeim skilmálum að ótímabundin aðild að tollabandalagi með ESB tryggði hindrunarlaus landamæri milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.
Að þessi skilyrði skuli fyrst samþykkt í neðri deild þingsins tveimur mánuðum fyrir úrsagnardaginn 29. mars sýnir hve illa undirbúnir Bretar voru sumarið 2016 þegar þeir samþykktu að segja sig úr ESB. Engar áætlanir lágu fyrir um hvað gera skyldi, hafnaði þjóðin aðild. Forsætisráðherrann, David Cameron, sem hratt þessu öllu af stað í von um að sameina Íhaldsflokkinn og drepa UKIP, flokk sjálfstæðissinna, var viss um að aðildarsinnar eins og hann ynnu í atkvæðagreiðslunni. Þegar hann tapaði þvoði hann hendur sínar og fór.
Theresa May fór allt of bratt af stað. Bretar réðu því hvenær tveggja ára fresturinn sem lýkur nú 29. mars hæfist. May hefði átt að gefa sér meiri tíma og búa breska stjórnkerfið og stjórnmálakerfið betur undir það sem í vændum var. Að hún gerði það ekki er enn eitt dæmið um hve illa Bretar voru í stakk búnir að vinna úr eigin ákvörðunum.
Hvað sem líður skoðunum manna á ESB eða aðild Breta að sambandinu verður á horfa á þessa mynd eins og hún er og einnig á aðferðirnar sem beitt hefur verið af þeim sem vilja ekki aðild. Þeir eru ekki lengur trúverðugir sé litið til stóryrða þeirra.
Hér á landi bera deilur um þriðja orkupakka ESB merki þess að þeir sem leggjast gegn lögfestingu hans hirði ekkert um það sem áður hefur verið gert eða staðreyndir almennt. Einn þessara manna kallaði mig „kvikindi“ á vefsíðu í gær (29. janúar) í tilefni af pistlinum sem hér birtist þá. Orðbragðið hæfir ómerkilegum málstaðnum.
Í dag (30. janúar) birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jónas Elíasson, fyrrv. prófessor, sem reist er á þeirri skoðun að þriðji orkupakkinn sé í raun forsenda þess að lagður sé raf-sæstrengur milli Íslands og ESB-landa. Skyldi Jónas ekki hafa lesið neitt sem sagt hefur í íslenskum skýrslum um slíkan sæstreng til þessa? Hvar er þess getið að þriðja orkupakkann þurfi til að slík áform nái fram að ganga? Pakkinn skyldar heldur engan til að leggja slíkan streng eða til að taka á móti honum.
Í um það bil ár hefur rangfærslunum verið haldið að Íslendingum um þriðja orkupakkann, ekki er unnt að jafna þeim við annað en skipulegar upplýsingafalsanir. Allt er þetta gert til að hræða alþingismenn frá því að innleiða í íslenska löggjöf texta sem þeir hafa áður samþykkt að rúmist innan íslensku stjórnarskrárinnar.