Breska stjórnlagakreppan dýpkar
Hvert sem litið er blasir við upplausn á æðstu stöðum í Bretlandi. Breska stjórnlagakreppan vegna brexit dýpkar í stað þess að minnka.
Hæstiréttur Bretlands, 11 dómarar, komst að
samhljóða niðurstöðu, sem kynnt var í morgun (24. september), um að tillaga Boris Johnsons til drottningarinnar um að senda þingið
heim hefði verið „ólögmæt“ og „marklaus“ vegna þess að „áhrif hennar voru að trufla
eða hindra þingið við að gegna stjórnskipulegu hlutverki sínu án skynsamlegrar
réttlætingar“. Dómararnir ákváðu hins vegar að það væri „engin þörf fyrir dómstólinn
að athuga hvort markmið forsætisráðherrans eða tilgangur hafi verið ólögmætur“. Það væri nú verkefni forseta neðri deildar og
lávarðadeildar þingsins að kalla þingið saman. John Bercow, forseti neðri málstofunnar, boðaði í
beinni útsendingu frá flötinni við þinghúsið til þingfundar á morgun.
John Bercow þingforseti boðar til fundar miðvikudaginn 25. september.
Áður en hæstiréttur felldi dóm sinn sagði Boris Johnson að hann mundi sitja áfram hver sem niðurstaðan yrði. Afdráttarleysi hæstaréttarins er slíkt að hann á ekki von á stuðningi þingmanna utan harðsnúins hóps stuðningsmanna. Dómararnir áréttuðu gildi bresks þingræðis. Öllum rökum ríkisstjórnarinnar var hafnað. Hún gekk að mati dómaranna gegn þingræðinu og því verður nú örugglega beitt gegn Boris Johnson.
Brexit-atkvæðagreiðslan sumarið 2016 hefur leitt til meiri upplausnar í breskum stjórnmálum en nokkurn gat órað fyrir. Niðurstaða dómaranna er ein versta útreið sem nokkur forsætisráðherra Bretlands hefur fengið. Valdið er í höndum þingsins. Vilja þingmenn leggja verk sín undir dóm kjósenda í nýjum kosningum? Ákveða þeir að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu?
Þá beinist athyglin einnig að sambandi forsætisráðherrans við drottninguna en þar er stigið inn á svo viðkvæmt svið að breskir skýrendur og álitsgjafir voga sér tæplega að fara inn á það.
Áður en dómurinn féll sögðu sérfræðingar í stjórnlögum Breta að ólíklegt væri að dómararnir teldu sig hafa vald til að gefa ríkisstjórn eða þingi fyrirmæli, virðingin fyrir þrískiptingu valdsins kæmi í veg fyrir að reitum yrði ruglað á þann veg. Allt annað gerðist: dómararnir sögðu ríkisstjórnina hafa misbeitt valdi sínu með því að senda þingið heim og gáfu þingforsetum fyrirmæli um að kalla þingmenn saman til fundar.
Boris Johnson hefur sagt hvað eftir annað að hann muni leiða Breta úr ESB 31. október. Dagsetningin er að líkindum úr sögunni og þar með má segja að grundvöllurinn fyrir öllu því sem forsætisráðherrann hefur sagt um brexit sé hruninn.
Frá því að Johnson varð forsætisráðherra hefur athygli mjög beinst að ráðgjafa hans, Dominic Cummings. Hvort sem stjórnmálamenn vilja brexit eða ekki krefjast þeir nú afsagnar hans. Harðlínustefna Johnsons og lögbrotið með því að senda þingið heim sé allt honum að kenna.
Hvert sem litið er blasir við upplausn á æðstu stöðum í Bretlandi. Breska stjórnlagakreppan vegna brexit dýpkar í stað þess að minnka. Það dugar ekki að berja sér á brjóst heldur er nauðsynlegt að leita jafnvægis og stöðugleika, fyrst innan lands og síðan gagnvart ESB. Meirihluti þingmanna er andvígur brexit-stefnunni sem Boris Johnson fylgir. Á nokkrum vikum hefur hann orðið fórnarlamb eigin stefnu, þriðji forsætisráðherra Íhaldsflokksins.
David Cameron efndi til brexit-atkvæðagreiðslunnar til að binda enda á ESB-deilur í breskum stjórnmálum. Hann vildi vera áfram í ESB og tapaði. Theresa May hætti eftir að hafa lagt sama málið þrisvar fyrir neðri málstofuna og orðið undir. Boris Johnson braut lög til að ná fram vilja sínum.