11.8.2019 11:05

Breska stjórnin snýst gegn upplýsingafölsunum

Aðferðin sem er beitt til að koma upplýsingafölsunum á framfæri eru ólíkar. Hér gripu þingmenn Miðflokksins til málþófs á alþingi í þessu skyni.

Micahel Gove, ráðherra ESB-útgöngu án samnings í bresku ríkisstjórninni, hefur ákveðið að koma á fót sérsveit embættismanna til að bregðast hratt og markvisst við „uppspuna og hálfsannleika fjölmiðla“ um hættuna af því að fara úr ESB án samnings.

Sagt er frá því í The Sunday Telegraph 11. ágúst að Viðbragðsteymið (e. Response Unit) hefji störf mánudaginn 12. ágúst og í því sitji embættismenn frá forsætisráðuneytinu. Verkefni þeirra sé að tryggja að ekki sé alið á „ótta almennings og fyrirtækja með hræðslufréttum og fölsunum“.

Í blaðinu segir að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi fengið sig fullsadda af fréttum gegn útgöngu án samnings sem BBC hafi birt undanfarið. Mælirinn hafi fyllst þegar fullyrt var í Newsnight í BBC2 í fyrri viku að hugsanlega yrði 45.000 mjólkurkúm slátrað á Norður-Írlandi færu Bretar úr ESB án samnings og nýir hátollar yrðu lagðir á mjólk frá Bretlandi. Breska umhverfis- og landbúnaðarráðuneytið sagði ekkert slíkt á dagskrá en BBC hafði þá yfirlýsingu að engu.

Viðbragðsteymið getur brugðist við á margvíslegan hátt, leiðrétt missagnir þar sem þær birtast eða notað Twitter og Facebook fyrir utan að hafa beint samband við þá sem hafa hagsmuna að gæta og birta lýsingu á staðreyndum á vefsíðum.

Meðal þess sem bresk stjórnvöld óttast er að hræðsluáróður leiði til þess að almenningur taki til við að hamstra varning sem spáð er að verði af skornum skammti.

DigitalDisinformationÍ gær birtist hér endursögn á grein eftir dálkahöfundinn Anne Applebaum í The Washington Post sem snerist um upplýsingafalsanir gegn bólusetningum og hvernig þær hefðu leitt til mislingafaraldurs á Ítalíu.

Fréttin í The Sunday Telegraph í dag er af sama meiði. Hún er um hættuna af því þegar röngum upplýsingum er haldið að almenningi og öðrum.

Aðferðin sem er beitt til að koma upplýsingafölsunum á framfæri eru ólíkar. Hér gripu þingmenn Miðflokksins til málþófs á alþingi í þessu skyni. Þeir höfðu það upp úr málæðinu að afgreiðslu þriðja orkupakkans var frestað til 2. september.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir alþingi hafa framið lögbrot en þingmenn hans ekki brot á siðareglum. Þingnefndir afgreiddu þriðja orkupakkann til upptöku í EES-samninginn að frumkvæði Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í stjórn Sigmundar Davíðs. Þetta segja miðflokksmenn líka öðrum að kenna.

Liður í upplýsingafölsunum hér er að hafna því að upptaka í EES-samninginn feli í sér þjóðréttarlega skuldbindingu. Í stað þess að viðurkenna þessa staðreynd er gripið til útúrsnúninga á hugtakinu „stjórnskipulegur fyrirvari“. Hann þýðir að í upptöku-skuldbindingunni felst fyrirheit um lagabreytingu til að hrinda henni í framkvæmd. Við þetta vilja miðflokksmenn og málsvarar þeirra ekki kannast.

Sama má segja um rangar fullyrðingar um „valdaframsal“ vegna þriðja orkupakkans. Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið vegna hans falla undir þá túlkun á framsalinu sem fólst í aðild að EES 1. janúar 1994. Þrátt fyrir þetta er fullyrt að um framsal á ráðum yfir orkulindum sé að ræða!

Þegar leitað er skýringa á þessum fullyrðingum er vísað í tvíræð orð í einu af mörgum álitum lögfræðinga vegna málsins, höfundar álitsins segja að stjórnlagamál þurfi að skoða nánar verði lagður sæstrengur milli Íslands og annarra landa.

Á lokastigum málsins réttir héraðsdómari miðflokksmönnum og stuðningsmönnum þeirra bjarglínu með sviðsmynd um skaðabætur yrði fjárfesti neitað að tengja sæstreng við íslenskt raforkukerfi. Málefnalegum rökum sem kippa stoðum undan sviðsmyndinni er hafnað með síðbúnum og margræddum vangaveltum um fullveldið.

Á síðustu metrunum en einnig sveiflað því „trompi“ að framkvæmdastjórn ESB sem átt hefur í deilum við belgísk stjórnvöld um innleiðingu þriðja orkupakkans síðan 2014 hafi ákveðið að vísa málinu til ESB-dómstólsins. Belgísk stjórnvöld vilja halda í meiri stjórnmálaleg afskipti af ákvörðunum um orkuverð en ESB telur samræmast samkeppnisreglum. Miðflokksmenn taka afstöðu með belgísku ríkisstjórninni. Skilja má hana sem afturhvarf til opinberra verðlagsnefnda sem hurfu með samkeppnisreglum EES.