19.11.2021 10:37

Bresk útlendingamál í ólestri

Blaðið segir að úrsögn Breta úr ESB hefði átt að auðvelda skjóta og sanngjarna afgreiðslu hælisumsókna. Allt annað hafi gerst.

Breska lögreglan vinnur nú að því að upplýsa hryðjuverk í Liverpool sunnusaginn 14. nóvember þegar Emad Al Sewalmeen sprengdi sig í loft upp fyrir utan sjúkrahús. Í leiðara nýjasta hefti af Spectator segir að illvirkinn hefði ekki átt að vera í Bretlandi. Hælisumsókn hans hafi verið hafnað árið 2014 en hann aldrei fluttur úr landi.

Í stað þess að fara hafi hann þóst snúast til kristinnar trúar til að skapa sér aðstöðu til að áfrýja kröfunni um brottvísun.

Leader-GettyBreska lögreglan rannsakar hryðjuverk í Liverpool

Leiðarahöfundur Spectator veltir fyrir sér hvers vegna það taki svona langan tíma í Bretlandi að koma brottvísuðum hælisleitendum úr landi. Nú séu um 40.000 manns á lista brottvísaðra enn í Bretlandi. Suma sé unnt að senda úr landi strax, aðrir grípi til allra hugsanlegra ráða til að tefja fyrir framkvæmd ákvarðana yfirvalda sem sum hver hafi ekki burði til að gegna hlutverki sínu.

Mjög hafi hægt á afgreiðslu hælisumsókna vegna farsóttarinnar. Áður en hún setti strik í reikninginn hafi um 29.000 beðið lengur en sex mánuði eftir afgreiðslu nú séu þeir um 54.000.

Afgreiðsla á málum manna sem ógna augljóslega þjóðaröryggi taki jafnvel mörg ár. Grípi stjórnvöld ekki til aðgerða gegn hryðjuverkamönnum sem þykist vera flóttamenn sé hætta á að óvild skapist milli almennra borgara og þeirra sem eru raunverulegir flóttamenn.

Líta verði til þeirrar staðreyndar að islömsk öfgahyggja hafi breytt viðhorfi til hælisleitenda. Alkunna sé að liðsmenn al-Kaída og Ríkis íslams hafi misnotað réttarstöðu hælisleitenda, þóst vera flóttamenn til að komast inn til Bretlands.

Bretar hafi einlæga þrá til að aðstoða þá sem eiga í raun undir högg að sækja og eru í lífshættu. Þess vegna sé brýnt að standa þannig að málum að hryðjuverkamenn eins og Al Swealmenn misnoti ekki kerfið.

Vitað sé að sumir hælisleitendur haldi þannig á eigin málum að afgreiðsla þeirra dragist sem lengst svo að þeir geti síðan notað þau rök sér til varnar að þeir hafi í raun komið sér fyrir í samfélaginu og ómannúðlegt sé að raska fjölskyldu- og heimilislífi þeirra. „Sé auðvelt að leika á kerfið, er leikið á það,“ segir Spectator réttilega.

Blaðið segir að úrsögn Breta úr ESB hefði átt að auðvelda skjóta og sanngjarna afgreiðslu hælisumsókna. Allt annað hafi gerst. Smíðað hafi verið svo flókið og hátimbrað kerfi að Bretland sé nú segull fyrir spillingaröfl. Smyglarar á fólki komi nú tugum manna ólöglega til Bretlands dag hvern. Flókin og óskilvirk bresk stjórnsýsla auðveldi glæpamönnum störf þeirra. Þeir geti með vissu sagt þeim sem á annað borð komist inn á Bretlandseyjar að þeir verði ekki fluttir úr landi. Í ár hafi 15 manns týnt lífi á smyglaraferð yfir Ermarsund. Orðið sem fari af Bretum fyrir að vera linir í útlendingamálum kosti mannslíf.

Þetta er umhugsunarverð lýsing á stöðu mála í nágrenni okkar. Skal enn einu sinni minnt að hér hafa stjórnvöld alls ekki nýtt sér til hlítar þá kosti sem fyrir hendi eru til öflugs landamæraeftirlits þar sem um 98% allra aðkomumanna fara um sömu bygginguna á Keflavíkurflugvelli.