16.2.2024 9:27

Brengluð heimssýn

Það er undarlegt að fullveldissamtök eins og Heimssýn skuli flagga sérstaklega málflutningi þingmanns sem vill ekki að í íslenskri lögsögu sé fullveldi einstaklinga til að njóta EES-aðildarinnar virt og tryggt.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fylgdi þriðjudaginn 13. febrúar úr hlaði skýrslu sinni til alþingis um bókun 35 við EES-samninginn. Vegna athugasemda við framkvæmd Íslands á samningnum af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) verða íslensk stjórnvöld að tryggja betur rétt borgara í íslenskri lögsögu samkvæmt samningnum. Þetta má gera með breytingu á íslenskum lögum á alþingi eða bíða dóms EFTA-dómstólsins myndi ESA skjóta málinu þangað.

Utanríkisráðherra sagðist velja fyrri kostinn og boðaði að í ljósi umræðna um skýrsluna myndi hann endurflytja frumvarp forvera síns frá í fyrra sem talið er að leysi úr ágreiningi íslenskra stjórnvalda og ESA.

Skýrsluna flytur ráðherrann til að kalla fram almennari umræður um EES-samstarfið en aðeins varðandi þennan þátt þess.

Einkennilegt var að hlusta á málflutning þeirra þingmanna í Flokki fólksins og Miðflokknum sem reyna að fóta sig á þeirri skoðun að styðja bæði aðild að EES-samstarfinu en telja aðildina samt vera á þeim mörkum að brjóta gegn stjórnarskránni og þetta mál kunni að vera kornið sem fylli mælinn. Bergþór Ólason miðflokksþingmaður kveinkaði sér sérstaklega undan því að látið væri að því liggja að hann væri andstæður EES-aðildinni þótt allur málflutningur hans væri á þann veg.

Í þessu máli eins og öðrum vilja tveir þingmenn Miðflokksins bera kápuna á báðum öxlum. Ræður þeirra á þingi einkennast annars vegar af yfirlætisfullri neikvæðni í garð alls og allra og hins vegar hástemmdu lofi um ræður hvor annars. Fundir í þingflokki þeirra hljóta að vera miklar gleðistundir.

Screenshot-2024-02-16-at-09.25.33

VG-maðurinn Bjarni Jónsson beitti sér gegn því í fyrra að frumvarpið vegna athugasemda ESA fengi afgreiðslu í utanríkismálanefnd þingsins þar sem hann gegndi formennsku. Hann flutti ræðu í umræðunum 13. febrúar og gladdi meðal annars vefsíðustjóra Heimssýnar, samtaka sem voru stofnuð gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu en beita sér nú í þágu þeirra sem hafa horn í síðu EES-samstarfsins eða eru andvígir því.

Vefsíðustjórinn fagnar því að Bjarni Jónsson hafi staðið vaktina 13. febrúar og segir hann hafa snúið „niður frumvarp um bókun 35 með snyrtilegum hætti“. Er þar líklega vísað til misnotkunar Bjarna á formannsvaldinu í utanríkismálanefnd. Birtur kafli úr ræðu þingmannsins frá 13. febrúar.

Bjarni Jónsson ímyndar sér í ræðunni að mönnum hafi ekki verið ljóst hvað fælist í bókun 35 þegar EES-samningurinn var gerður og samþykktur fyrir 30 árum. Hann horfir fram hjá því að samningurinn snýst um að Íslendingar sitji við sama borð og aðrir á sameiginlega evrópska markaðnum. Þetta var öllum ljóst fyrir 30 árum og þurftu ekki að ræða það sérstaklega, bókun 35 mælir fyrir um hvernig þessu markmiði skuli náð. Í ljós hefur komið að ákvæði EES-laganna duga ekki að mati íslenskra dómstóla til að markmiðinu sé náð. Úr því má bæta með breytingu á EES-lögunum.

Það er undarlegt að fullveldissamtök eins og Heimssýn skuli flagga sérstaklega málflutningi þingmanns sem vill ekki að í íslenskri lögsögu sé fullveldi einstaklinga til að njóta EES-aðildarinnar virt og tryggt.