7.10.2017 13:25

Brenglaður siðfræðikvarði

Að fjalla um pólitískar árásir á stjórnmálamann án þess að taka pólitísku breytuna með í reikninginn er að sjálfsögðu siðferðilega ámælisvert.

Í Spegli ríkisútvarpsins var föstudaginn 6. október rætt við Henry Alexander Henrysson, sérfræðing hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar áréttaði hann þá skoðun að kjörinn fulltrúi gengi inn í ákveðinn siðferðilegan veruleika sem fylgdi  hlutverkinu. Máli hans og athafnafrelsi og margvíslegum réttindum fylgdu ákveðnar kvaðir.

Allt er þetta satt og rétt. Sérfræðingurinn og fréttamaðurinn létu þess þó ógetið að með því að ganga inn á þetta svið yrði einnig til „veiðileyfi“ á þennan einstakling. Ýmsir teldu réttmætt að ráðast á hann, ekki vegna siðferðilegra sjónarmiða, þótt þeir færðu það oft í þann búning, heldur vegna flokkspólitískra hagsmuna.

Campaign_eval-20161020103036851-20161024103604197

Að fjalla um pólitískar árásir á stjórnmálamann án þess að taka pólitísku breytuna með í reikninginn er að sjálfsögðu siðferðilega ámælisvert. Skautað var fram hjá þessum þætti í samtalinu sem birtist í Speglinum föstudaginn 6. október af því að það kippir grundvellinum í raun undan boðskapnum sem miðaði að því að varpa skugga á stjórnmálamenn.  Í þessu tilviki vegna árása á Bjarna Benediktsson í Stundinni sem varð tilefni uppsláttar í fréttum ríkisútvarpsins fyrr þennan sama dag. Væri uppslátturinn settur í réttan pólitískan búning væri einhliða birting á honum í ríkisútvarpinu lögbrot.

Í upphafi samtalsins við siðfræðinginn sagði Arnar Páll Hauksson fréttamaður að fréttastofan hefði rætt uppslátt Stundarinnar við nokkra lögmenn sem hefðu ekki talið að um lögbrot að ræða. Úr því að ekki var unnt að réttlæta málið með vísan til lögbrots ákvað fréttastofan að leita til siðfræði-sérfræðings. Fréttastofan kaus ekki að ræða málið frá þeim sjónarhóli sem skýrði það best: þeim pólitíska.

Í sama Spegli þennan dag birtist raunar pólitísk hlið málsins þegar birtur var kafli úr ræðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, þar sem hann nýtti sér Stundina sér til framdráttar og taldi það sæma flokki sínum vel að gera málstað hennar að sínum. Logi boðaði einnig að ekki ætti að láta lög og reglur alltaf ráða ákvörðunum á stjórnmálavettvangi heldur einhver önnur óljós sjónarmið í sérstökum málum.

Í hádegi föstudags 6. október var fjölmennt málþing í Háskólanum í Reykjavík (HR) í tilefni af útgáfu á afmælisriti til heiðurs Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni sjötugum. Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði við HR, varaði einmitt í erindi sínu við sjónarmiðum á borð við þau sem Logi boðaði. Arnar Þór benti á að það væri stutt skref frá stjórnmálum til lagasetningar og teldu stjórnmálamenn að stundartilfinningar ættu að ráða lagasetningu í stað þess að menn gætu treyst á fyrirsjáanleika, yfirsýn og yfirvegun væri hætta á ferðum.