18.2.2023 12:10

Braggi lokar borgarskjalasafni

Nú réttum þremur árum frá því að sviðsstjórinn gagnrýndi safnið vegna frumkvæðis í braggamálinu vilja hann og borgarstjóri bara loka borgarskjalasafninu – helst með hraði og leynd.

Bókað var í borgarráði fimmtudaginn 16. febrúar:

„Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra [Dags B. Eggertssonar] um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

Frestað.

Óskar J. Sandholt, Hjálmur Dór Hjálmsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Helena Óladóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.“

Þarna er sem sagt lagt fram trúnaðarskjal um að leggja niður borgarskjalasafnið. Tillagan vakti reiðiöldu í netheimum meðal sagnfræðinga og annarra sem nýta sér safnið til rannsókna- og fræðistarfa.

Það er sérkennilegt að farið skuli með tillöguna og fylgiskjöl hennar sem trúnaðarmál þegar um kynningu þess í borgarráði er að ræða. Hefði mátt ætla að málið væri undirbúið á þann veg að efni þess þyldi dagsins ljós.

Af frétt í Morgunblaðinu í dag (18. febrúar) verður ráðið að með málið hefur við allan undirbúning þess verið farið sem leyndarmál gagnvart Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði sem segist aðeins hafa fréttir ríkisútvarpsins fyrir því að tillaga hafi verið lögð fyrir borgarráð að leggja niður safnið sem hún stjórnar.

MG_3111-1024x683_1676722158244Bragginn frægi í Nauthólsvík. Stráin voru flutt inn frá Danmörku (af vefsíðunni dv.is).

Í frétt blaðsins segir að til grundvallar tillögu borgarstjóra um borgarskjalasafnið hafi legið skýrsla frá KPMG um starfsemi og fjárhag safnsins. Svanhildur segir að skýrsla KPMG hafi ekki verið kynnt starfsmönnum safnsins. Óskar Jörgen Sandholt, sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), hafi sagt að óheimilt væri að dreifa henni til starfsmanna.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir að ÞON sé eitt af þremur kjarnasviðum Reykjavíkurborgar. Meginhlutverk sviðsins sé að annast innri og ytri þjónustu Reykjavíkurborgar og stuðla að nýsköpun í starfsemi hennar. Um framkvæmd þessara verkefna hvílir slík leynd innan borgarkerfisins að hvorki starfsmenn borgarstofnana né lesendur fundargerða borgarráðs fá að kynnast þeim hugmyndum sem þar fæðast og ætlunin er að hrinda í framkvæmd.

Í ljósi þessarar miklu leyndarhyggju í borgarkerfinu hjá yfirstjórn eins þriggja kjarnasviða þess kemur minna á óvart en ella að frá því komi tillaga um að leggja niður sjálft borgarskjalasafnið. Það er líklega talið hamla nýsköpun í starfsemi borgarinnar og innri og ytri þjónustu að greiður aðgangur sé að upplýsingum um það sem skjalfest er.

Í braggamálinu svonefnda fyrir réttum þremur árum fann Óskar Jörgen að því opinberlega sem sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg að af hálfu borgarskjalasafns skyldi vakin athygli á að skjalameðferð vegna framkvæmda við bragga í Nauthólsvík stæðist ekki lög um skjalavörslu og skjalastjórn (dv.is 13. febrúar 2020).

Óskar Jörgen sagðist ósammála niðurstöðu borgarskjalasafnsins um lögbrot.

Nú réttum þremur árum frá því að sviðsstjórinn gagnrýndi safnið vegna frumkvæðis í braggamálinu vilja hann og borgarstjóri bara loka borgarskjalasafninu – helst með hraði og leynd.