28.11.2023 10:37

Bragð er að ....

Sú opinbera stofnun sem býr við mestan álitshnekki vegna alls þessa er sjálft ríkisútvarpið. Þar hafa menn greinilega eitthvað að fela.

Um þessar mundir eru fjögur ár frá því að upplýst var að ráðherrar og embættismenn í Namibíu hefðu hagnast á úthlutun veiðileyfa til fyrirtækis Samherja í landinu og greiðslur vegna leyfanna hefðu ef til vill runnið til stjórnarflokks landsins.

Ríkisútvarpið (RÚV) kallar þetta Samherjamálið. Í Namibíu er á hinn bóginn talað um Fishrot-hneykslið. Fer hneykslismálið í Namibíu loks fyrir dómara þar í næstu viku, þriðjudaginn 5. desember.

Þessu máli var hleypt af stokkunum hér í Kastljósi sjónvarpsins 12. nóvember 2019. Skömmu síðar sendu tveir aðstandendur þáttarins, Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson, ásamt Stefáni Aðalsteini Drengssyni, frá sér bókina Ekkert að fela – á slóð Samherja í Afríku. Kristinn Hrafnsson, blaðafulltrúi WikiLeaks og Julians Assange, ritaði eftirmála bókarinnar og sagði að auk höfundanna hefði vefsíðan Stundin orðið „hluti af fjölmiðlabandalaginu“ sem vann að verkefninu og hefði blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson, bæst í hópinn. Af bókinni má ráða að vinátta Helga og Kristins hafi orðið kveikjan að gerð Kastljóss-þáttarins og ritun bókarinnar.

Gn2150jlf_1701167768457

Á árunum fjórum sem liðin eru frá því að þessu máli var fyrst hreyft á þennan hátt hafa sakborningar setið í haldi í Namibíu en þeir Helgi og Aðalsteinn fært sig um set í íslenska fjölmiðlaheiminum, frá RÚV yfir á Stundina sem nú heitir Heimildin.

Ólokið er rannsókn mála hér sem tengjast þessu ferli. Héraðssaksóknari segist ekki geta lokið rannsókn sem snýr að Samherja vegna þess að sig skorti gögn frá Namibíu. Nú þegar málaferlin hefjast þar fyrir opnum tjöldum hljóta öll gögn málsins að liggja á lausu fyrir íslensk yfirvöld. Þess skal getið að saksóknarinn sem farið hefur með málið hér er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar.

Þá má kalla byrlunarmálið svonefnda sem er til rannsóknar á Akureyri hluta þessa máls. Þar eru fyrrv. starfsmenn fréttastofu RÚV sagðir eiga hlut að ótrúlegu máli ásamt ritstjóra Heimildarinnar. Vegna þess hve mikið er í húfi fyrir traust í garð fjölmiðla hér er brýnt að öll spil í þessu máli verði tafarlaust lögð á borðið.

Sú opinbera stofnun sem býr við mestan álitshnekki vegna alls þessa er sjálft ríkisútvarpið. Ástæðan er sú afstaða stjórnenda þess að horfast ekki í augu við afleiðingar óvandaðra vinnubragða með því að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þeir hafa eitthvað að fela.

Menn þurfa ekki að hafa verið innvígðir í Efstaleiti til að átta sig á að þar er pottur brotinn. Í Staksteinum í dag (28. nóv.) er vitnað í gamalreyndan RÚV-mann, Atla Rúnar Halldórsson, sem segir:

„Mér er enn ofarlega í huga þegar RÚV fór af stað með Namibíumálið og gerði Fiskidaginn mikla á Dalvík að „Samherjasamkomu“ í ákveðnum og augljósum tilgangi. Ég þekki innviði og allt gangverk Fiskidagsins út og inn. Fullyrðingar RÚV voru dylgjur, bull og faglegt fúsk.“

Að gera Fiskidaginn mikla að Samherjasamkomu er samnefnari fyrir þau ófagmannlegu vinnubrögð sem eru aðalsmerki RÚV í þessu máli öllu.