5.2.2019 10:20

Bráðnun Himalajajökla aftur á dagskrá

Íslenskir fjölmiðlamenn birta eins og ekkert sé ranghermi í fyrirsögn um bráðnun Himalajajökla.

Á mbl.is birtist í dag (5. febrúar) frétt undir fyrirsögninni „Loftslagskrísan sem enginn heyrði af“ og þar segir:

„Tveir þriðju af jöklabreiðu Himalajafjallanna gætu bráðnað fyrir árið 2100 ef fram fer sem horfir. [ Í fréttum Bloomberg og The New York Times um málið segir að það sé einn þriðji jöklanna sem kunni að bráðna, BBC segir tveir þriðju innsk. Bj. Bj,] Þetta kemur fram í nýrri umfangsmikilli rannsókn Alþjóðamiðstöðvar ítarlegra fjallarannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á Hindu Kushsvæðið í Himalajafjöllunum (KHK). Rannsóknin er afrakstur vinnu yfir 350 vísinda og fræðimanna og nær yfir um fimm ára tímabil.[...]

„Þetta er loftslagskrísan sem enginn heyrði af,“ segir Philippus Wester, sem fór fyrir rannsókninni, en hann segir niðurstöðurnar jafnframt vera mikið áfall.“

Að enginn hafi heyrt að því að Himalajajöklar kynnu að bráðna vegna „loftslagskrísu“ er einfaldlega rangt eins og til dæmis má lesa í úttekt sem gerð var og birtist í tímaritinu Þjóðmál. Auðvelt er að finna úttektina hér. 

Himalayas-karakoram-glacier-flickrHimalajajöklarnir.

Eins og þarna má lesa þótti mikið alþjóðlegt hneyksli snemma árs 2010 þegar upplýst var um að „getgátur“ um að Himalajajöklarnir yrðu að engu árið 2035 væru skáldskapur frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC).

Málið vakti sérstaka athygli hér á landi vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. forseti Íslands, og „stofnunin“ Global Centre sem Kristján Guy Burgess setti á fót árið 2005, þegar hann var „alþjóðaráðgjafi“ Ólafs Ragnars, blönduðust inn í málið í alþjóðlegri umfjöllun fjölmiðla. Var Ólafur Ragnar málsvari skjótrar bráðnunar jöklanna á ferðum sínum víða um heim á þessum árum.

Fyrirsögnin á mbl.is sýnir að fljótt fennir í þessi spor eins og mörg önnur. Íslenskir fjölmiðlamenn birta eins og ekkert sé ranghermi í fyrirsögn um bráðnun Himalajajökla. Enn einkennilegra er að vísindamaðurinn sem lét þessi orð falla skuli ekki vita betur. Hitt kann að vísu að vera skýring, að loftslagsvísindamönnum þyki tæplega 10 ára gamla hneykslið svo mikið áfall fyrir vísindarannsóknir á þessu sviði að best þyki að minnast ekki á það.

Uppfært:

Þess má geta að Himalajajöklarnir eru oft nefndir þriðji póllinn milli norðurpóls og suðurpóls. Við Hringborð norðursins (Arctic Circle), sem Ólafur Ragnar Grímsson stjórnar, hafa verið málstofur um þriðja pólinn. Vísindamenn frá Háskóla Íslands, þar á meðal Helgi Björnsson jöklafræðingur, eiga hlut að niðurstöðum þessara rannsókna, samanburður við þróun íslenska jökla hefur mikið gildi. Fyrir tilstuðlan Ólafs Ragnars og samstarfsmanna hans hefur Helgi meðal annars haldið nokkur námskeið á Indlandi í samvinnu við samtök indverskra jöklafræðinga.

Hér má nálgast nýju skýrsluna.