30.9.2024 10:15

Boris um hefndir Macrons

Áform Camerons um að skapa frið um afstöðuna til ESB með atkvæðagreiðslunni brást gjörsamlega. Enginn flokkur hefur goldið fyrir Brexit með sama hætti og Íhaldsflokkurinn. 

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefur skrifað æviminningar sem koma bráðlega út í bók. Kynning á efni þeirra er hafin í The Daily Mail og á vefsíðunni The Telegraph (30. september). Þar segir Johnson frá því að hann hafi átt vinsamleg samskipti við Emmanuel Macron Frakklandsforseta um margt en vegna Brexit, úrsagnar Breta úr ESB, hafi Macron viljað ná sér niðri á Bretum, það yrði að refsa þeim.

82400490_10158097820828453_709158117715214336_nEmmanuel Macron og Boris Johnson.

Johnson nefnir í þeirri andrá smábátana sem héldu frá Frakklandi yfir Ermarsund til Bretlands með þúsundir farandfólks sem hætti með því lífi sínu.

„Það virtist að minnsta kosti hugsanlegt að hann kynni að nýta sér þennan vanda sem vopn, á sama hátt og gert var í Belarús, hann leyfði í kyrrþey nógu mörgu farandfólki að leggja frá landi til að breskur almenningur gengi af göflunum og grafa undan því mikilvægasta sem tengdist Brexit – að við hefðum að nýju tekið við vörslu landamæra okkar.“

Johnson segist hafa náð sér niðri á Frökkum með því að fá Ástrali til að hætta við kaup á frönskum kafbátum.

Boris Johnson gerir upp við fleiri samtímamenn í bók sinni. Í þeim hópi er David Cameron sem boðaði sem forsætisráðsherra til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit í von um að úrsögn úr ESB yrði hafnað og brást ókvæða við þegar Johnson tók forystu meðal stuðningsmanna Brexit.

Áform Camerons um að skapa frið um afstöðuna til ESB með atkvæðagreiðslunni brást gjörsamlega. Enginn flokkur hefur goldið fyrir Brexit með sama hætti og Íhaldsflokkurinn sem heldur landsfund þessa dagana og kýs nýjan leiðtoga eftir afhroð í þingkosningum 5. júlí sl. og brotthvarf úr stjórnarráðinu eftir að hafa stjórnað þar í 14 ár.

Það er ekki tilviljun að The Daily Mail birtist sömu daga og Íhaldsflokkurinn efnir til landsfundar. Þar verður kjörinn nýr leiðtogi í staðinn fyrir Rishi Sunak sem boðaði til kosninga 5. júlí 2024 þegar flokkurinn galt afhroð.

Boris Johnson situr ekki landsfundinn en sendir honum kveðju á þann hátt að kenna reiði Macrons vegna Brexit um það sem gróf mjög undan trúverðugleika Johnsons sem boðaði að með Brexit næðu Bretar að nýju stjórn á eigin landamærum og vörslu þeirra.

Útlendingamálin eru vandamál stjórnmálamanna í öllum löndum hvort sem þeir vilja leyfa sem flestum að koma til lands síns eða loka því. Sunnudaginn 29. september varð Frelsisflokkurinn (FPÖ) stærsti flokkur Austurríkis í þingkosningum. Formaður flokksins boðar útlendingastefnu sem hann kennir við remigration, það er umsnúning. Ekki verði látið við það sitja að þvinga nýja hælisleitendur og farandfólk til að yfirgefa Austurríki heldur einnig innflytjendur og afkomendur þeirra hvort sem þeir hafa austurrískan passa eða ríkisborgararétt.

Meira að segja Marine Le Pen í Frakklandi hefur fundist þetta of ströng útlendingastefna en AfD-flokkurinn í Þýskalandi, sem gerir það nú gott í kosningum, er hallur undir stefnuna.

Útlendingamálin eru hitamál víðar en hér.