28.7.2020 10:07

Boris ræðst gegn offitu

Fréttaskýrendur velta fyrir sér hvort Boris Johnson verði helst minnst sem forsætisráðherrans sem lagði mest af mörkum til að leysa helsta heilbrigðisvanda Breta.

Þegar Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, náði sér af kórónuveirunni eftir að hafa legið milli heims og helju sannfærðist hann um að offita hefði átt þátt í veikindum sínum. Nú beitir hann sér og ríkisstjórn sinni fyrir gífurlegu átaki gegn offitu í Bretlandi.

Fréttaskýrendur velta fyrir sér hvort Boris Johnson verði helst minnst sem forsætisráðherrans sem lagði mest af mörkum til að leysa helsta heilbrigðisvanda Breta. Hvort hann verði Edwin Chadwick nútímans.

Chadwick barðist fyrir „hreinlætishugsjón“ sinni á fjórða tug 19. aldar og hvatti til að lögð yrðu holræsi þrátt fyrir andstöðu ráðandi afla. Þegar þéttbýli jókst vegna iðnvæðingarinnar í Bretlandi stráféll fólk vegna sjúkdóma á borð við blóðkreppusótt, barnaveiki, taugaveiki og kóleru. Um 1850 var meðalævi aðeins 38 ár í London. Í Manchester og Liverpool töldust þeir heppnir sem urðu eldri en 30 ára. Börn urðu verst úti.

Chadwick lét ekkert aftra sér og barðist ótrauður fyrir hugsjón sinni. Barátta hans leiddi að lokum til „hreinlætisvakningarinnar miklu“ í Evrópu og Ameríku. Með því að sannfæra opinbera aðila um skyldu þeirra til að leggja holræsakerfi í þágu samfélagsins alls var milljónum mannslífa bjargað og efnahagslífið blómstraði – ekki síst í Bretlandi.

Samanburður af þessu tagi gefur ekki alltaf rétta mynd og vafalaust er of fast að orði kveðið að líkja vandanum vegna offitu við það sem herjaði á mannfólkið um miðja 19. öld. Engu að síður er það gert núna í breskum blöðum þegar átaki Boris gegn offitu er hrundið af stað.

TELEMMGLPICT000235836147_trans_NvBQzQNjv4BqwR9CmnucIcqQaI247kVHKeDb_zHeougPJk0-Rsnxim0Þessi mynd af Boris Johnson að viðra hund sinn í garðinum við Chequers-bústað forsætisráðherra Breta var birt til marks um að hann hefði grennst og  vildi grenna sig enn frekar.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Breta, sagði mánudaginn 27. júlí að misstu of feitir 2,2 kg sparaði það breska heilbrigðiskerfinu (NHS) meira en 100 milljónir punda næstu fimm árin. Þó ætti ekki aðeins að hugsa um álagið á NHS í þessu sambandi heldur ætti hver og einn að íhuga álag á eigin líkama og eigið þrek til að takast á við marga sjúkdóma þar á meðal vegna kórónuveirunnar. Um 8% kórónu-sjúklinga á gjörgæslu í breskum sjúkrahúsum væru sjúklega feitir en af öllum íbúum landsins væru þeir um 3%. Banvæna veiran hefði því reynst tímabær áminning um að takast á við ójöfnuð í heilsufari landsmanna og í því sambandi væri brýnt að berjast gegn offitu.

Kjarni baráttunnar er fræðsla og miðlun upplýsinga. Aðeins með því að virkja einstaklinga og fjölskyldur til að gæta eigin heilsu næst árangur í þessu efni.

Stórfyrirtækjum með yfir 250 starfsmenn er skylt að upplýsa kaupendur um kaloríufjölda í tilbúnum réttum sem þau selja. Það auðveldi fólki að gæta sín borði það utan eigin heimilis. Sjónvarpsauglýsingar sem kunna að ýta undir slæmar matarvenjur barna verða bannaðar fram til kl. 21.00. Bannað verður að hafa smávörur með sætindum nærri afgreiðslukössum í verslunum til að minnka freistingar barna og annarra.

Þetta er þó aðeins toppurinn á ísjakanum. Um leið og ráðist er að neysluvenjum verður hvatt til heilsueflingar með hreyfingu og hugleiðslu. Vonandi heppnast þetta átak og nær til fleiri þjóða, þar á meðal okkar hér á landi.