7.6.2022 11:00

Boris á útleið

Boris Johnson berst oftast til sigurs. Nú hefur hann brotið of margar brýr að baki sér. Hann er á útleið, hvað það gerist með miklu bauki og bramli kemur í ljós.

Hague lávarður (William Hague), fyrrverandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins, sagði í útvarpsviðtali þriðjudaginn 7. júní, daginn eftir að Boris Johnson, núverandi flokksleiðtogi og forsætisráðherra, naut stuðnings meirihluta þingflokks íhaldsmanna (211:148) að þetta mundi ekki enda vel.

Hague sagði að líklega færi eitthvað „alvarlega á verri veg“ þar sem 148 þingmenn hefðu greitt atkvæði gegn Boris þegar vantrauststillagan á hann var borin undir atkvæði í þingflokknum. Ómögulegt væri að segja hvernig þetta endaði en það mundi ekki enda vel.

„Þegar óánægjan er svona mikil innan stjórnmálaflokks og í ljósi þess að sem forsætisráðherra verður þú að geta reitt þig á stuðning alls flokksins, baráttuhug allra flokksmanna, geta hvatt þingmenn þína til dáða, beðið hvern þeirra sem er um að setjast í ríkisstjórn, yfirgnæfandi meirihluti ætti að vera sannfærður um að þeir geti gengið til næstu kosninga og sagt, já, þetta er leiðtoginn fyrir næstu fimm árin.

Sértu ekki í þessari stöðu á eitthvað annað eftir að fara alvarlega á verri veg. Ég veit ekki hvað það verður en þetta er, að ég vona, hlutlægt mat.“

Hann líkti Boris Johnson við ökumann á hraðbraut sem reyndi að komast leiðar sinnar á tveimur felgum, dekkin væru sprungin. Hann hlyti að enda utan vegar.

APTOPIX_Britain_Estonia_22157475314695Boris er brugðið.

Dominic Raab dómsmálaráðherra og varaforsætisráðherra er einn helsti talsmaður forsætisráðherrans í fjölmiðlum. Þegar hann var spurður um ummæli Hagues lávarðar svaraði hann: „William hefur frelsi til að segja álit sitt. Í sannleika sagt einbeiti ég mér að því sem gera þarf næst.“

Hann sagði að sameina yrði allan þingflokk íhaldsmanna til að sinna forgangsmálum flokksins og berjast við Verkamannaflokkinn. Höfuðmáli skipti að íhaldsmenn stæðu saman. Hann taldi að Boris byggi nú yfir „endurnýjaðri orku“ til að framkvæma það sem hann hefði lofað að gera. Íhaldsmenn hefðu stefnu, kraft og liðsheild sem væri Verkamannaflokknum ofviða.

Þessum hjaðningavígum innan Íhaldsflokksins lýkur ekki á þann veg sem Raab vonar. Sé litið til fortíðar flokksins og tilvika þar sem þingflokkurinn gerði hríð að flokksleiðtogunum Margaret Thatcher og Theresu May þá stóðu þær betur að vígi innan þingflokksins en Boris gerir nú og urðu þó báðar að víkja fyrr en seinna.

Reglur gera ráð fyrir að leiðtogi í stöðu Borisar nú verði ekki að nýju kallaður fyrir dóm þingflokksins fyrr en ár er liðið frá því að vantrausti var hafnað. Þessi regla gildir eins lengi og meirihluti þingmanna vill, það er tæknilegt atriði að ýta henni til hliðar.

Boris Johnson berst oftast til sigurs. Nú hefur hann brotið of margar brýr að baki sér. Hann er á útleið, hvað það gerist með miklu bauki og bramli kemur í ljós.