7.7.2022 9:43

Boris á lokametrunum

Þetta eru ótrúlega hörð átök og mildast ekki við að forsætisráðherrann ætlar ekki að hverfa úr embætti fyrr en í fulla hnefana.

Boris Johnson (58 ára) hefur verið ráðandi stjórnmálamaður innan breska Íhaldsflokksins frá því að hann tók forystu gegn aðild Bretlands að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Hann taldi að Theresa May, leiðtogi flokksins og forsætisráðherra, stæði ekki nægilega vel að því að framkvæma Brexit-vilja fólksins með úrsögn úr ESB. Hann velti henni úr forystu og varð flokksleiðtogi og forsætisráðherra árið 2019.

Johnson rauf þing og bauð til kosninga í desember 2019. Þar leiddi hann flokk sinn til mikils sigurs. Flokkurinn hlaut 43,6 atkvæða og mesta meirihluta þingmanna frá árinu 1987. Bretar sögðu skilið við ESB 31. janúar 2020. Skömmu síðar hófust átökin við COVID-19 og þótti Boris Johnson standa sig vel við að tryggja Bretum bóluefni. Eftir að Rússa réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 gat Boris Johnson sér gott orð sem öflugur stuðningsmaður þeirra og hvatti leiðtoga annarra lýðræðisríkja til dáða.

Np_file_169090-scaledBoris Johnson í fyrirspurnartíma neðri deildar þingsins miðvikudaginn 6. júlí 2022.

Strax og hann varð forsætisráðherra mátti lesa lýsingar samstarfsmanna hans, til dæmis frá tíð hans sem blaðamanns, á ótrúverðugum einstaklingi sem böðlaðist áfram og gæfi lítið fyrir form, lög og reglur teldi hann það setja sér óþægilegar skorður. Vissulega væri maðurinn skemmtilegur, hnyttinn og orðhvatur það kynni þó að verða hættulegt að treysta slíkum „trúði“ um of í háu embætti.

Þessi viðvörunarorð féllu dauð. Stuðningsmenn flokksleiðtogans bentu á að hann höfðaði sterkt til almennings eins og tvö kjörtímabil hans sem borgarstjóri í London sýndu. Þar hefði einnig sannast að hann hikaði ekki við að leita sér ráða færustu manna og hlíta þeim. Hæfileikar hans væru ótvíræðir eins og birtist í því að honum hefði tekist á ná því markmiði sínu að verða leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra.

Þegar fylgst er með falli breska forsætisráðherrans núna beinist gagnrýnin einkum að persónu hans og göllum. Á vefsíðunni The Telegraph undir ritstjórn þeirra sem styðja Íhaldsflokkinn birtist hvert bréfið eftir annað frá fráfarandi ráðherrum í bresku ríkisstjórninni þar sem bent er á að framganga forsætisráðherrans sjálfs hafi orðið honum að falli. Það sér ekki unnt að verja hann eða telja kjósendum trú um að treysta flokki og ríkisstjórn undir hans forystu.

Þetta eru ótrúlega hörð átök og mildast ekki við að forsætisráðherrann ætlar ekki að hverfa úr embætti fyrr en í fulla hnefana. Þegar þetta er skrifað er talið að hann segi af sér sem flokksleiðtogi en sitji áfram sem forsætisráðherra fram að landsfundi íhaldsmanna í haust þar sem nýr leiðtogi taki við af honum.

Hvort þetta gengur eftir kemur í ljós. Innan Íhaldsflokksins eru vafalaust margir sem treysta honum ekki heldur til að sitja sem „starfandi“ forsætisráðherra, gruni hann um græsku og vita að hann er óútreiknanlegur.