7.10.2021 10:04

Borgin leitar skjóls hjá Bloomberg

Er það skilyrði sjóðs Bloombergs að ekki sé stofnað til samstarfs við einkaaðila um styrk-verkefnið? Eða er það enn einn „misskilningurinn“ af hálfu Dóru Bjartar?

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, fór með rangt mál í borgarstjórn þriðjudaginn 5. október þegar hún greip til varna fyrir misráðna stefnu meirihluta borgarstjórnar við endurbætur á stafrænni stjórnsýslu. Dóra Björt laug því að samráð hefði verið haft við Samtök iðnaðarins (SI) en segir nú sér til afsökunar að hún hafi farið dagavillt. Fundurinn verði síðar. Fundinn átti að halda til samráðs um stefnuna sem meirihlutinn samþykkti á þriðjudaginn.

Í Morgunblaðinu í dag (7. október) segir Dóra Björt auk þess sér til afsökunar að SI hafi beint umræðum um stafræna umbreytingu borgarinnar inn á „villigötur“. Hún blæs enn til ófriðar gagnvart SI og forystumönnum þeirra. Þessi afstaða hennar kemur ekki á óvart miðað við fyrri ofstopa í garð andmælenda hennar og birst hefur í blaðagreinum.

Í Morgunblaðinu í dag eru greinar eftir þrjá fulltrúa minnihlutans í borgarstjórn, Eyþór Arnalds og Hildi Björnsdóttur í Sjálfstæðisflokknum, og Kolbrúnu Baldursdóttur í Flokki fólksins, þar sem bent er á hve illa meirihlutinn stendur að þessu stafræna máli.

Kolbrún segir í grein sinni að „ævintýralegar upphæðir“ hafi streymt í alls konar stafræn tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar. Hún segir til dæmis enn beðið eftir „Hlöðunni“, nýju upplýsingastjórnunarkerfi borgarinnar, sem líta átti dagsins ljós 2019. Annað dýrt stórverkefni hafi ekki klárast, „Gagnsjáin“, nýtt skjala- og upplýsingakerfi og endurhönnun svokallaðra „Minna síðna“.

Þessi lýsing Kolbrúnar á stafrænum verkefnum í undandrætti hjá Reykjavíkurborg auka ekki trú að innan borgarkerfisins ráði menn við enn stærri verkefni á þessu sviði.

42879846144_20035700b8_oMichael Bloomberg og Dagur B. Eggertsson (mynd: reykjavik.is).

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur þá skýringu á andstöðu meirihlutans við útboð á stafrænu umbreytingunni að þar sé farið að kröfu sjóðs í eigu Michaels R. Bloombergs, auðmanns og fyrrverandi borgarstjóra í New York. Vísar Vigdís þar til samstarfssamnings sem Bloomberg Philantrophis hefur gert við Reykjavíkurborg um stafræna vegferð Reykjavíkurborgar til þriggja ára. Var samningurinn lagður fyrir borgarráð 28. september 2021. Er þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar falin framkvæmd hans, að andvirði 2,3 milljónir Bandaríkjadala, meðal annars skal ráða fimm starfsmenn.

Sjóður Bloombergs valdi Reykjavíkurborg til þátttöku í verkefninu „Build Back Better“ sem ætlað er að hraða stafrænni umbreytingu svo bæta megi líf og lífsgæði jarðarbúa í kjölfar heimsfaraldurs, segir í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð. Sex borgir taka þátt í verkefninu: Amsterdam, Reykjavík, Bogotá, Mexíkóborg, San Francisco og Washington D.C.

Er það skilyrði sjóðs Bloombergs að ekki sé stofnað til samstarfs við einkaaðila um styrk-verkefnið? Eða er það enn einn „misskilningurinn“ af hálfu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, formanns mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs borgarinnar? Ráðið fer með pólitíska stjórn á framkvæmd samningsins við Bloomberg.

Er réttmætt eða jafnvel lögmætt að veita erlendu styrkfé móttöku sé bann við útboði sett sem skilyrði? Samkeppnislög og reglur gera ríkar skyldur til sveitarfélaga.

Undir stjórn Dags B. Eggertssonar hefur Reykjavíkurborg hvað eftir annað brotið gegn samkeppnisreglum. Er offorsið vegna stafrænu umbreytinganna enn eitt dæmið um ásetning meirihlutans um að hafa þessar reglur að engu?