23.2.2019 11:16

Borgarritari leitar langt yfir skammt

Undir niðri býr vanlíðan og bjargarleysi vegna ástands sem versnað hefur stig af stigi frá því að Jón Gnarr varð borgarstjóri með stuðningi og í skjóli Dags B. Eggertssonar.

Að Stefán Eiríksson borgarritari sjái sig knúinn til að skrifa á FB að ónafngreindir borgarfulltrúar gangi of langt í orðum og framgöngu gegn borgarstarfsmönnum er ekki annað en toppur á ísjaka í Ráðhúsinu. Undir niðri býr vanlíðan og bjargarleysi vegna ástands sem versnað hefur stig af stigi frá því að Jón Gnarr varð borgarstjóri með stuðningi og í skjóli Dags B. Eggertssonar.

Vandinn felst ekki í því að borgarfulltrúar minnihlutans sinna skyldum sínum með gagnrýni á einstaka þætti í borgarkerfinu. Það hefur verið gert i borgarstjórn áratugum saman og ekki sætt sérstökum tíðindum.

Það sem er núna öðru vísi en áður og hefur verið frá 2010 er að borgarstjóri stendur ekki í stafni og lætur brjóta á sér. Jón Gnarr hafði enga burði til þess. Dagur B. víkur sér undan því. Borgarstarfsmenn eru þess vegna berskjaldaðir og jafnvel skotspónn borgarstjóra.

Nýjasta dæmið er klúðrið vegna borgarstjórnarkosninganna 2018. Lög voru brotin í aðdraganda kosninganna, borgarstjórinn fer strax í afneitun vegna málsins. Þeir sem vilja brjóta málið til mergjar horfa því til Önnu Kristinsdóttur, mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar. Hún kvartaði opinberlega undan gagnrýni á sig áður en Stefán Eiríksson kvaddi sér hljóðs. Enginn annar en borgarstjórinn og meirihluti hans setti Önnu í eldlínuna.

Stefan_eiriksson_010Myndin er af vefsíðu Reykjavíkurborgar og sýnir Stefán Eiriksson borgarritara (t.v.) og Dag B. Egggertsson borgarstjóra.

Fjallað er um bréf borgarritara í leiðara Morgunblaðsins í dag (23. febrúar) og meðal annars sagt:

„Það er hins vegar spurning hvers vegna starfsfólki borgarinnar finnst það vera í eldlínunni. Staðreyndin er sú að meirihlutinn í borginni og þá sérstaklega borgarstjórinn gera sér far um að varpa af sér allri ábyrgð á stjórn borgarinnar. Besta dæmið um það er braggamálið þar sem pólitíkin reynir að fría sig með öllu og setja ábyrgðina í fangið á embættismanninum.

Er virkilega við þá sem borgarritari gagnrýnir að sakast? Hann ætti kannski frekar að biðja borgarstjóra um að láta af því að varpa ábyrgðinni yfir á starfsfólkið og hætta að hegða sér eins og túristi í borginni. Þar er skekkjan.“

Undir þessa skoðun skal tekið. Upptök vandans sem borgarritari lýsir eru í skrifstofunni við hlið hans í Ráðhúsinu – borgarstjóraskrifstofunni.