8.5.2022 11:25

Borgarmeirihluti og verðbólga

Húsnæðisleysisstefna borgarstjórnarmeirihlutans hækkar húsnæðisverð og er alvarlegur verðbólguvaldur. Ráðaleysi borgarstjóra og atkvæðalítils meirihluta er fyrirstaða í húsnæðismálum.

Í mars 2020 greip ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til markvissra efnahagsaðgerða vegna COVID-19-faraldursins. Þær fleyttu þjóðinni farsællega í gegnum margra missera boðaföll. Þegar birta tók á ný var efnahagsvélin ótrúlega fljót að taka við sér eins og við blasir hvarvetna núna. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmála, stýrði skútunni frá degi til dags eftir sameiginlegri stefnu stjórnarflokkanna. Ekkert fór í raun úrskeiðis.

Nú stendur þjóðarbúið frammi fyrir annars kona vanda. Þegar seðlabankinn hækkaði vexti 4. maí 2022 sagði peningastefnunefnd hans:

„Efnahagshorfur hafa heldur versnað frá febrúarspá Seðlabankans vegna neikvæðra áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu. Á hinn bóginn eru vísbendingar um talsverðan þrótt innlendra umsvifa. Slakinn í þjóðarbúinu virðist horfinn og spenna tekin að myndast á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir 4,6% hagvexti í ár en að hann verði tæplega 3% á næstu tveimur árum.

Verðbólga mældist 7,2% í apríl og horfur hafa versnað verulega. Enn sem fyrr vegur hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur hækkað mikið.“

Húsnæðisleysisstefna borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík hækkar húsnæðisverð og er alvarlegur verðbólguvaldur. Vegna ráðaleysis borgarstjóra og atkvæðalítils meirihluta er fyrirstaða í húsnæðismálum. Hún leysist ekki nema skipt verði um manninn í brú Reykjavíkurborgar.

Kjósendur í Reykjavík geta gripið til þess úrræðis gegn verðbólgunni í kosningunum laugardaginn 14. maí. 

Mynd4Ríkisstjórnin kynnti mótvægisaðgerðir sínar til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins strax föstudaginn 6. maí. Horft verður til sértækra aðgerða með hækkun bóta almannatrygginga, sérstökum barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta.

Bætur ellilífeyrisþega hækkuðu um 4,6% um síðustu áramót í samræmi við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs og bætur örorkulífeyrisþega um 5,6%. Í ljósi verðlagsþróunar verða bætur hækkaðar um 3% frá 1. júní og hækka framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna sérstakrar uppbótar einnig um 3% og nýtist því hækkunin mest þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Í lok tilkynningar ríkisstjórnarinnar frá 6. maí segir:

„Ríkisstjórnin telur brýnt að koma til móts við þann hóp sem hækkandi verðbólga mun bitna verst á og það strax. Ríkisstjórnin mun engu að síður leggja áherslu á aðhaldssöm ríkisfjármál til að styðja við peningastefnu Seðlabankans.“

Þetta er skýr stefna, markviss framgangur hennar er tryggður eins og framkvæmd Bjarna Benediktssonar á COVID-19-stefnunni.

Helstu málsvarar meirihlutans í Reykjavík hittast nú vikulega á Austurvelli til að úthrópa Bjarna Benediktsson. Að það sé gert í nafni góðra stjórnarhátta er argasta öfugmæli, fjármálastjórn ríkisins skilar árangri en borgarinnar skuldum.