13.5.2017 13:43

Borgaraleg öryggisgæsla við landamæri og í netheimum

Enginn vafi er á að stóraukið eftirlit og greining í þágu landamæravörslunnar er besta leiðin til að efla öryggiskennd þeirra sem í landinu eru og styrkja borgaralega öryggisvörslu sem er alfarið á hendi íslenskra yfirvalda.

Alþjóðlegir straumar eru öndverðir ferðalögum frá Bandaríkjunum vegna viðvörunar yfirvalda þar um hættu á hryðjuverkum í Evrópu. Þá hafa bandarísk yfirvöld jafnframt innleitt reglur sem takmarka heimild til að hafa með sér fartölvu í farþegarými flugvéla á leið til Bandaríkjanna. Er jafnvel talið að þetta bann verði látið gilda í flugi frá Evrópu yfir Norður-Atlantshaf.

Hér skal engu spáð um hvaða áhrif þetta hefur á komu ferðamanna til Íslands. Tíðindin minna hins vegar á brýna nauðsyn þess að öryggisgæsla sé viðunandi á Keflavíkurflugvelli.

Í erindi um borgaralega öryggisgæslu sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti á fundi Varðbergs 4. maí og sjá má hér lagði hún ríka áherslu á mikilvægi greiningarstarfs á Keflavíkurflugvelli. Heimildir eru í íslenskum lögum til að skylda alla sem flytja fólk hingað til lands til að senda yfirvöldum nöfn þeirra sem fluttir eru. Með aðild íslenskra yfirvalda að alþjóðlegum gagnagrunnum hjá Interpol, Europol og vegna aðildarinnar að Schengen-samstarfinu er unnt að skanna slíka lista og taka þá til sérstakrar athugunar sem vekja grunsemdir eftirlitsmanna.

Enginn vafi er á að stóraukið eftirlit og greining í þágu landamæravörslunnar er besta leiðin til að efla öryggiskennd þeirra sem í landinu eru og styrkja borgaralega öryggisvörslu sem er alfarið á hendi íslenskra yfirvalda.

Annar þáttur borgaralegrar öryggisvörslu lýtur að tölvuvörnum. Í gær föstudaginn 12. maí var gerð tölvuárás sem nú er talið að nái til meira en 100 landa. Notað var spilliforrit sem sagt er að hafi átt uppruna sinn hjá NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, en glæpamenn breytt í svonefnt ránsforrit.

Með ránsforriti er átt við að ráðist sé inn í tölvukerfi, lokað sé aðgangi að gögnum í kerfinu og neitað að opna hann nema greitt sé lausnargjald, í þessu tilviki 300 dollarar sem greiða skal í Bitcoins, það er tölvueyri.

Windows-stýrikerfi sem ekki hafa verið uppfærð með endurbót til að loka á spilliforritið voru fórnarlömb tölvuræningjanna að þessu sinni.

Í dag, laugardaginn 13. maí, segja fréttastofur að tekist hafi að hægja á útbreiðslu ránsforritsins eftir að sérfæðingur fann að tilviljun það sem kallað er kill switch á ensku eða banvænan slökkvara sem gerir út af við óvininn. Bent er á að ekki sé unnt að beita slökkvaranum innan kerfa sem þegar hafa orðið fyrir barðinu á ránsforritinu.

Hnattræn átök í netheimum eru staðreynd sem ekki verður undan vikist. Borgaraleg öryggisgæsla er fjölbreytt og krefst mikillar árvekni og greiningar til að bera árangur.