Bólusetning ræður úrslitum
Ekki lengur heimsfaraldur í Bretlandi heldur landlægur faraldur, veiran dreifist á lágu stigi og má í stórum dráttum hafa stjórn á henni í samfélaginu.
Sérfræðingar segja að ekki ríki lengur farsótt í Bretlandi, gögn sýni að bólusetning hafi minnkað COVID-smit um allt að 90%. Hér er um að ræða niðurstöður fyrstu stóru rauntíma-rannsóknarinnar á áhrifum bólusetninga. Sarah Walker, prófessor í heilsutölfræði og faraldsfræði í Oxford, lýsir ástandinu þannig að ekki ríki lengur heimsfaraldur í Bretlandi heldur landlægur faraldur, veiran dreifist á lágu stigi og megi í stórum dráttum hafa stjórn á henni í samfélaginu.
Tekin voru sýni úr 373.402 einstaklingum á tímabilinu frá 1. desember 2020 til 3. apríl 2021. Í ljós kom að þremur vikum eftir einn skammt af annað hvort Pfizer eða AstraZeneca höfðu smiteinkenni (e. symptomatic infections) minnkað um 74% (90% eftir tvo skammta) og smit án einkenna um 57% (70% eftir tvo skammta).
Smitum fækkar jafnt og þétt í Bretlandi þótt skólar og verslanir hafi verið opnaðar fyrir viku. Í fyrsta sinn síðan í október 2020 breyttist tíðni dauðsfalla í Bretlandi þannig í mars að flestir féllu þar ekki frá vegna COVID, fleiri dóu vegna heilabilunar og hjartveiki.
Bólusett í Laugardalshöll (mynd mbl.is).
Sarah Walker sagðist vona að halda mætti COVID í skefjum með bólusetningu. Undanfarna þrjá mánuði hefðu harðar bannreglur og bólusetning skilað góðum árangri, bannreglur dygðu hins vegar ekki til langframa og þess vegna væri bólusetningin eina leiðin til að hafa stjórn á þróuninni. Hún sagði að landlægur faraldur væri sveiflukenndur og stundum kynni að muna litlu hvort tækist að halda veirunni í skefjum.
Í Bretlandi höfðu 21. apríl um 60% íbúa myndað mótefni gegn veirunni annaðhvort hefur fólkið smitast af henni eða verið bólusett. Hér hafði 80.721 verið bólusettur 22. apríl eða rúmlega 20% landsmanna, 32.609 einstaklingar eru fullbólusettir.
Aðfaranótt sumardagsins fyrsta (um kl. 04.30 22. apríl) samþykkti alþingi breytingu á sóttvarnalögum. Er heilbrigðisráðherra heimilt að skylda ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á hááhættusvæði vegna kórónuveiru til að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Heimildin gildir til loka júní 2021.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, lýsa ánægju með lögin í Morgunblaðinu í dag (23. apríl). „Ég tel að það sé framfaraskref að geta stuðst við þessi lög,“ segir Þórólfur og gerir tillögu til heilbrigðisráðherra um framkvæmd þeirra. Hann ætlar að nota áhættumat almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra á landamærunum.
Sigurgeir segir lögreglu og annað starfsfólk á Keflavíkurflugvelli hafa nokkra reynslu í að flokka farþega og senda á sóttkvíarhótel. Hægt sé að skoða bókanir í flug en oft þurfi að treysta orðum fólksins sjálfs. „Við erum orðin vön að eiga við þá hluti,“ segir Sigurgeir.
Samhliða árvekni á landamærum sýnir reynsla Breta að það skiptir sköpum að hraða bólusetningu svo sem verða má. Haldist þetta í hendur næst stjórn á faraldrinum hér enda virði þeir sem eru í sóttkví eða einangrun gildandi reglur.