25.7.2021 10:15

Bólusetning er svarið

Forsenda þess að stöðva megi útbreiðslu veirunnar er að stór hluti þjóðarinnar sé ónæmur fyrir henni. Ónæmi skapast með bólusetningu eða eftir að hafa smitast af pestinni.

Í dag (25. júlí) birtist grein eftir Klaus Dohm í Jyllands-Posten um nauðsyn þess að hjarðónæmi skapist gegn kórónuveirunni í Danmörku. Þegar samfélagið sé opnað á ný ráði hjarðónæmi úrslitum um hvernig takist að hrista af því farsóttina í Danmörku og annars staðar. Í fimm liðum veltir höfundurinn fyrir sér spurningum um hve marga þurfi að bólusetja til að hjarðónæmi skapist og hve miklu ný veiruafbrigði ráði um hvenær daglegt líf verði eðlilegt að nýju.

Hvað er hjarðónæmi?

Forsenda þess að stöðva megi útbreiðslu veirunnar er að stór hluti þjóðarinnar sé ónæmur fyrir henni. Ónæmi skapast með bólusetningu eða eftir að hafa smitast af pestinni. Hjarðónæmi myndar fyrirstöðu gegn veirunni sé hún nægilega öflug skapast vörn fyrir alla.

Hvenær skapast hjarðónæmi?

Það ræðst af því hve smitandi veiran er og hve öfluga vörn bólusetning veitir gegn henni. Í upphafi töldu vísindamenn í Danmörku að bólusetja þyrfti um 70% dönsku þjóðarinnar til að skapa hjarðónæmi. Vegna reynslu af kórónuveirunni hefur þetta hlutfall nú verið hækkað. Eðlilegt er að veira breyti sér. Hættan af henni eykst ef hún verður meira smitandi, veikindi vegna hennar magnast eða bóluefni ná ekki lengur til hennar.

Hver eru áhrif Delta-afbrigðisins á hjarðónæmi?

Delta-afbrigðisins varð fyrst vart á Indlandi í október 2020 og það hefur síðan breiðst út til 124 landa að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem sagði föstudaginn 23. júlí að nýjar rannsóknir í Kanada og Kína bentu til þess að afbrigðið breiddist hraðar út en fyrri afbrigði en án eins alvarlegra veikinda. Þetta kemur heim og saman við rannsóknir danskra sérfræðinga um útbreiðslu afbrigðisins í Danmörku.

Files-us-pharmaceutical-vaccines-virus-pfizer-biontechHve marga þarf að bólusetja til að ná hjarðónæmi gegn nýju afbrigðunum?

Rannsóknir á Englandi sýna að eftir tveggja sprautu bólusetningu dugar hún rétt eins vel gegn Delta-afbrigðinu og endranær. Smitkraftur afbrigðisins veldur því hins vegar að fleiri en ella þarf að bólusetja til að skapa hjarðónæmi. Danskir sérfræðingar telja þess vegna að bólusetja eigi börn á aldrinum 12-15 ára. Nú sé nauðsynlegt að bólusetja um 86% íbúa Danmerkur til að ná hjarðónæmi. Í Danmörku eru 12 ára og eldri 87% þjóðarinnar. Miðað við framgang bólusetninga í Danmörku er talið að þessu marki verði náð þar í haust og þar með fyrirstöðu með hjarðónæmi.

Geta komið afbrigði sem leiða til kröfu um bólusetningu allra?

Veiran kann áfram að berast á milli barna undir 12 ára aldri án þess að þau verði alvarlega veik. Mislingar eru mest smitandi og þar skapast hjarðónæmi í kringum 90%. Eins og málum er nú háttað í Danmörku er ekki talinn sérstakur ávinningur af að bólusetja þá sem eru yngri en 12 ára. Ekki er þó hægt að útiloka neitt vegna útbreiðslu veirunnar víða um lönd sem getur kallað fram ný afbrigði.

Hér á Íslandi eru 85,3% 16 ára og eldri fullbólusettir og 4,9% hálfbólusettir. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að bólusetja 12 til 16 ára hér eins og í Danmörku. Fyrsta svörun í þessum aldurshópi meðal Dana var 30% en eins og sést af því sem segir í Jyllands-Posten verður þung áhersla lögð á að ná til sem flestra Dana á aldrinum 12 ára og eldri til að ná 87% hjarðónæmi í landinu. Hvenær verður markið sett svo hátt hér?

Eina úrræðið sem dugar er aukin bólusetning og Bandaríkjamenn búa sig nú undir þriðja skammt af tveggja stungu bóluefnum. Íslensk stjórnvöld ættu að grípa til sama ráðs og ekki bíða eftir ESB.