4.12.2020 10:35

Bólusetning á næsta leiti

Hér er talað um að bóluefni verði tiltækt í upphafi næsta árs. Hver dagur, vika og mánuður skiptir miklu. Hafa verður hraðar hendur.

Ákvörðun breskra yfirvalda um að hefja bólusetningu gegn COVID-19-veirunni mánudaginn 7. desember kveikir umræður um hvort um sé að ræða skemmri skírn hjá lyfjaeftirliti þeirra. Breskir og bandarískir embættismenn hafa skipst á óvinsamlegum orðsendingum vegna málsins og innan ESB heyrast efasemdir um að Bretar gæti alls þess öryggis sem beri að krefjast.

Vísindamenn vara við deilum af þessu tagi, þær kunni að hræða fólk frá að láta bólusetja sig. Öflug alþjóðleg lyfjafyrirtæki sem stofna til tilrauna með þátttöku tugþúsunda manna taka ekki vísvitandi áhættu með ófullburða bóluefni. Sumir líkja eftirlitinu við lyfleysu (e. placebo).

Jeremy Farrar, vísindalegur ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, segir að þjóðremba vegna bóluefnis eigi ekkert erindi í umræður um COVID eða önnur heilbrigðismál sem snerti allar þjóðir heims. Frá upphafi hafi verið ljóst að ekki yrði sigrast á þessari hrikalegu farsótt nema á vísindalegum grunni og hann sé alþjóðlegur.

Vegna þess hve mikil athygli beinist nú að lokaþætti brexit-samninganna um úrsögn Breta úr ESB hafa ýmsir, meðal annars breskir þingmenn, látið eins og úrsögnin hafi gert Bretum kleift að fara hraðar við að leyfa bólusetninguna en ESB. Þessar fullyrðingar standast ekki. Bretar eru enn undir lyfjaeftirlitshlíf ESB en hjá þeim gilda hins vegar gömul lög sem heimila sérstakar aðgerðir breskra yfirvalda þegar neyðarástand skapast í heilbrigðismálum.

Alið hefur verið á ótta við bólusetningum víða um lönd og í Bandaríkjunum ríkir til dæmis minna traust í garð lækna meðal blökkumanna en hvítra. Barack Obama, fyrrverandi forseti, segir að hann sé fús til að láta bólusetja sig í beinni sjónvarpsútsendingu megi það verða til að ýta undir áhuga annarra blökkumanna á að fara að fordæmi hans. Bill Clinton og George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, vilja einnig leggja sitt af mörkum í þágu bólusetninga.

ForsetarBarack Obama, Bill Clinton og George W. Bush - fúsir til að láta bólusetja sig í beinni útsendingu.

Hér er talað um að bóluefni verði tiltækt í upphafi næsta árs. Hver dagur, vika og mánuður skiptir miklu. Hafa verður hraðar hendur. Hitt er ekki síður mikilvægt að skynsamlega verði staðið að því að endurræsa þjóðlífið. Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, fjallar um það í grein í Fréttablaðinu (4. des.) í dag og segir meðal annars:

„Leiðin út úr kreppunni verður best rötuð með sjálfstæðisfólk í fararbroddi. Sjálfstæðisfólk sem talar fyrir nauðsyn verðmætasköpunar í einkageiranum og fyrir fjölbreyttu atvinnulífi. Sjálfstæðisfólk sem eflir nýsköpun og skilur að hún er nauðsynleg til þess að halda hér áfram uppi samkeppnishæfu samfélagi. Sjálfstæðisfólk sem skilur að frjáls alþjóðleg viðskipti eru undirstaða hagsældar á Íslandi og leggur því áherslu á mikilvægi þess að styðja við íslenskan útflutning á sama tíma og það talar fyrir alþjóðlegri samvinnu, mannréttindum og lýðræði, ekki síst í baráttunni gegn heimsfaraldri.“

Undir þetta skal tekið. Við kynntumst því eftir bankahrunið hve dýrkeypt varð þjóðinni að á árunum 2009 til 2013 fóru með stjórn hennar fólk sem hélt í höft, stofnaði til stórdeilna um stjórnarskrá og ESB-aðild og hafði ríkisforsjá sem leiðarljós. Í kosningum í september 2021 þarf að tryggja að viðhorfið sem Diljá Mist lýsir fái brautargengi.