26.2.2025 12:23

Boða norrænt plan um hervæðingu

Kristrún skuldar Íslendingum skoðun sína á því hvernig hún sér hlut þeirra í þessu aukna norræna hernaðarsamstarfi. Verður Ísland hluti af þessu norræna plani?

Talið er að föstudaginn 28. febrúar verði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti í Washington og skrifi undir samning við Donald Trump Bandaríkjaforseta um að komið verði á fót sameiginlegum sjóði um auðlindir í Úkraínu eins og fágæt jarðefni. Markmið Trumps er að hlutur Bandaríkjanna í þessum sjóði dugi til að endurgreiða bandarískum skattgreiðendum fjármuni sem þeir hafa innt af hendi til stuðnings Úkraínu í stríðinu við Rússa.

Samningurinn hefur gildi sem upphitun fyrir aðalatriðið, vopnahlé sem leiðir til friðargerðar. Óvíst er að unnt verði að búa þannig um hnúta að Vladimir Pútin Rússlandsforseti telji sig ekki hafa sigrað í stríðinu. Hann vann mikinn áróðurssigur með aðstoð Trumps mánudaginn 24. febrúar þegar Bandaríkjastjórn gekk í lið með Rússum, Belarús, Norður-Kóreumönnum, Kínverjum og Írönum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og greiddi atkvæði gegn tillögu vegna þess að þar var Rússum kennt um stríðið í Úkraínu.

Þessi afstaða Trumps vekur ugg hjá mörgum evrópskum forystumönnum. Þriðjudaginn 25. febrúar hittust forystumenn norrænna jafnaðarmanna í Osló. Þar var Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fyrir Samfylkinguna og tveir aðrir norrænir forsætisráðherrar, Jonas Gahr Støre frá Noregi og Mette Frederiksen frá Danmörku.

Mette var mánudaginn 17. febrúar boðið í frönsku forsetahöllina þegar Emmanuel Macron hóf evrópska gagnsókn vegna óvissu um hvernig Trump ætlaði að haga stuðningi við Úkraínu og framkvæmd skuldbindinga undir merkjum NATO í Evrópu. Danskir fjölmiðlar segja að Mette sé nú gjaldgeng úrvalshóp evrópskra þjóðarleiðtoga og njóti þar trausts og virðingar vegna einarðs stuðnings við Úkraínu og vantrúar á að treysta megi Pútin.

1550708Frá norrænum kratatoppfundi í Osló 25. febrúar 2025: Jonas Gahr Støre, Mette Frederiksen og Kristrún Frostadóttir (mbl.is Atli Steinn Guðmundsson).

Mette hefur hvað eftir annað lýst þeirri skoðun að innrás Rússa í Úkraínu snúist ekki aðeins um Úkraínu. Í nýársávarpi sínu sagði hún:

„Við megum ekki vera barnaleg. Jafnvel þótt Pútin skrifi undir friðarsamning við Úkraínu megum við ekki halda að hann láti þar staðar numið. Að hann verði ánægður. Vegna þess að Pútin óskar ekki eftir friði. Hans óskastaða er Evrópa sem á allt undir Rússum.“

Eftir toppfund jafnaðarmanna í Osló segja fjölmiðlar að Mette hafi talað á þennan veg þar. Hún sagði við sænsku fréttastofuna TT 25. febrúar að nú þegar byggju Rússar sig undir árásir á aðra staði. „Því miður er ástandið nú þannig að slík sviðsmynd er hugsanleg,“ sagði hún og benti á „heimsveldisdrauma“ sem enn lifðu í Rússlandi. Hún vildi ekki nefna neitt land sem yrði skotmark Rússa.

Forsætisráðherrar Noregs og Danmerkur kynntu í tengslum við fundinn í Osló plan um nánara samstarf í hermálum og um frekari hervæðingu. Fyrir þeim vekti að kynna nú í vor mikilvæg skref til að efla norrænt samstarf um varnarmál.

Kristrún skuldar Íslendingum skoðun sína á því hvernig hún sér hlut þeirra í þessu aukna norræna hernaðarsamstarfi. Verður Ísland hluti af þessu norræna plani? Um það þarf að ræða á opinskáan hátt hér og mynda víðtæka samstöðu um málið.