Boð og bönn Landverndar
Sumir telja rannsóknir og þróun mála ekki gefa tilefni til þess að mála skrattann á vegginn. Aðrir segja að lýsa verði yfir neyðarástandi strax. Ekki verði unað við sleifarlag og orðagjálfur liðinna ára kippa strax í neyðarhemilinn.
Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem birt var mánudaginn 9. ágúst hefur eðlilega blásið nýju lífi í umræður um loftslagsmál hér á landi og um heim allan. Viðbrögðin ráðast af ýmsu. Sumir telja rannsóknir og þróun mála ekki gefa tilefni til þess að mála skrattann á vegginn. Aðrir segja að lýsa verði yfir neyðarástandi strax. Ekki verði unað við sleifarlag og orðagjálfur liðinna ára heldur kippa strax í neyðarhemilinn. Samtökin Landvernd vilja til dæmis að hætt verði innflutningi á bensín og díselbílum frá 2023.
Í dag, 14. ágúst, birtir Fréttablaðið alvöruþrungið kynningarviðtal við Tryggva Felixson, formann Landverndar, í tilefni af svörtu loftslagsskýrslunni. Blaðamaðurinn undirstrikar alvöru málsins með því að upplýsa lesendur um að Tryggvi sé „mjög yfirvegaður en um leið alvarlegur í bragði“ þegar þeir ræða saman. Tryggvi bendir á að Landvernd telji að ríkisstjórnin eigi að lýsa yfir „neyðarástandi“. Í slíku ástandi „sættum við okkur við róttækari aðgerðir“ en þær séu bæði umfangsmiklar og erfiðar „pólitískt, tæknilega og efnahagslega“. „Í samanburði við það ástand sem blasir við ef ekki tekst að takmarka losun, er Covid léttvægt,“ segir Tryggvi.
Við verðum að „stíga langt út fyrir þægindarammann“. Það verði til dæmis að hækka losunargjöld til að knýja fram minnkandi losun. Þá verði að huga að kolefnisbindingu. Hann segir sjávarútveg hafa verið duglegan við að draga úr losun og kvótakerfið auðveldi að skipuleggja veiðar. Málið sé flóknara í landbúnaði. Þar sé til dæmis „mikið verk að vinna við endurheimt votlendis“.
Fáist landeigendur ekki til að vinna að endurheimtingunni
verði „bara að setja það í lög að það eigi að moka ofan í skurði nema sýnt sé fram
á nauðsyn þeirra. Auðvitað væri þar með gengið á rétt landeigenda, en það er
bara ekki í lagi að menga með óþarfa framræslu,“ segir formaður Landverndar.
Orð formannsins um landbúnaðinn rista því miður ekki djúpt. Enn er ágreiningur um hve mikilli kolefnisbindingu endurheimt votlendis skilar í raun. Þá víkur hann ekki einu orði að nauðsyn þess að fyrir liggi alþjóðleg vottun til að unnt sé að verðleggja kolefniseiningar hér á landi. Þetta kann að stafa af andstöðu við að markaðslausnum sé beitt í loftslagsmálum en mikið gildi slíkra lausna setur æ meiri svip á loftslagsumræðurnar. Hér þarf bæði að tryggja slíka vottun og koma á fót gagnsæjum markaði fyrir kolefnisviðskipti.
Tryggvi segir að hvíli ekki ábyrgðin í loftslagsmálum á ríkisstjórnum og þjóðþingum sé hætta á „loftslagskvíða hjá þeim sem vilja leggja sitt af mörkum en finnst samfélagið ekki gera nóg“. Það eigi með öðrum orðum ekki að höfða til ábyrgðar einstaklinga á annan veg en þann að þeir virði boð og bönn yfirvalda.
Frjáls félagasamtök eins og Landvernd skipta máli í opinberum umræðum í opnum, frjálsum samfélögum og þau þrífast aðeins við þær aðstæður. Hvetji þau til stjórnarhátta boða og banna án sjálfstæðrar ábyrgðar einstaklinga vega þau að eigin tilveru og spilla fyrir eigin málstað.