Blekkingar vegna borgarlínu
Þetta er skarpleg hagfræðilýsing á þeim óskapnaði sem er að fæðast með borgarlínunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnar Árnason, fyrrverandi prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í Morgunblaðinu fimmtudaginn 29. október að nýfjárfesting í þjóðvegum í Reykjavík hafi „verið því nær engin undanfarin 12 ár, en vegakerfi borgarinnar þess í stað skipulega gert ógreiðfærara með ærnum tilkostnaði“. Þjóðhagslegur kostnaður við þetta sé líklega yfir 30 milljarðar króna á ári.
Ragnar bendir á að með borgarlínunni, endurbættu strætisvagnakerfi, sé von málsvara hennar að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu með strætisvögnum úr 4% í 12%. Borgarlínan auki hins vegar enn tafir þeirra sem ekki ferðast með henni:
„Hugmyndin er m.ö.o. sú að leggja auknar tafir á 88-96% borgarbúa til að flýta för 4-12% þeirra. Þar að auki verða þessi 88-96% borgarbúa sem verða fyrir auknum töfum í umferðinni að borga þorrann af fjárfestingunni í Borgarlínunni sem nemur tugum milljarða sem og rekstrartapið af strætisvögnunum.“
Þetta er skarpleg hagfræðilýsing á þeim óskapnaði sem er að fæðast með borgarlínunni á höfuðborgarsvæðinu.
Kortið sýnir fyrsta áfanga borgarlínu. Kjörbreidd er 35,5 m og allri annarri umferð er ýttt til hliðar. Umferðatafir aukast vegna þessa hjá 88 til 96% þeirra sem aka um Reykjavíkurborg.
Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins, skrifar grein um borgarlínu í Morgunblaðið föstudaginn 30. október.
Gestur bendir á að línan fari yfir Elliðaárnar, eftir Laugardalnum og niður á Hlemm, eftir Hverfisgötu og niður á Lækjartorg, eftir Lækjargötu og Fríkirkjuvegi, yfir Tjörnina á Skothúsvegi, upp að Landspítala og síðan yfir Fossvog, yfir á Kársnes og eftir því endilöngu að Hamraborg. Línan „yfirtaki sumar af þessum götum algerlega þannig að önnur ökutæki þurfa þá að leita eitthvað annað, með auknu álagi á þær götur“.
Gestur staðfestir með öðrum orðum að umferðarvandi 88-96% borgarbúa eykst stórlega með borgarlínunni. Gestur segir réttilega:
„Kynning á Borgarlínunni hefur að undanförnu verið með þeim hætti að nær ógerlegt hefur verið fyrir venjulegt fólk að átta sig á því hvað þarna er á ferðinni, en þó er hlutlaus kynning þeirra sérfræðinga sem þarna eiga hlut að máli og taka á því faglega ábyrgð samt forsenda fyrir því að fólk geti myndað sér skoðanir á skynsamlegum grundvelli og sett fram raunhæfar ábendingar/athugasemdir. Hér á ekki að vera að reyna að selja eina ákveðna hugmynd og þetta gildir jafnt um almenning, stjórnmálamenn og aðra sérfræðinga.“
Gestur bendir á verði ráðist í að leggja borgarlínuna sé æskileg breidd hennar talin vera 35,5 m, þetta sé því mjög mikil framkvæmd sem gerbreyti núverandi umhverfi. Hann gagnrýnir tilraunir til að fegra verkefnið í kynningu með grafík sem gefi alls ekki rétta mynd.
Af lestri þessara greina tveggja sérfróðra manna verður ekki annað ráðið en markvisst sé reynt að selja almenningi hugmynd á tilbúnum forsendum. Í smáa letri samgöngusáttmálans um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera fyrirvarar um áreiðanleikakönnun í þágu skattgreiðenda og íbúa höfuðborgarsvæðisins. Að þessi framkvæmd sé keypt því verði að Sundabraut sé lögð eða hættuleg og tafsöm gatnamót endurbætt er dapurlegur vitnisburður um hug þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg.