31.8.2017 9:19

Björt skapar uppnám meðal forstjóra

Í frétt Morgunblaðsins í dag vantar að forstöðumenn stofnana sem heyra undir Björt Ólafsdóttur sem ráðherra hafa þegar komið saman til að ráða ráðum sínum og kanna réttarstöðu sína.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að auglýsa stöður allra forstjóra sem undir ráðuneytið heyra, en samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru þeir skipaðir til fimm ára í senn. Þetta staðfestir hún í samtali við Morgunblaðið í dag.

Ráðherrann segist nú þegar hafa upplýst forstjórana um þessa ákvörðun. Björt segir: „Ég geri þetta á grunni þeirrar stefnu sem við í Bjartri framtíð höfum talað fyrir að undanförnu, þ.e. bætt vinnubrögð, aukið gagnsæi og opin stjórnsýsla. En það eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta mál eins og allt annað.“

Í Morgunblaðinu er rætt við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsmálaráðherra vegna þessarar ákvörðunar Bjartar

Bjarni segist ekki gera athugasemdir við ákvörðun Bjartar. Forsætisráðherra segir: „Það er enginn skuldbundinn af því að auglýsa stöðu eða auglýsa hana ekki.“

Benedikt segir: „Þetta er ekki almenn stefna ríkisstjórnarinnar, en Björt tilkynnti um daginn að hún myndi hafa þennan háttinn á. Ég hef ekkert sérstakt fram að færa um þetta. Þetta er hennar ákvörðun.“

Enn þann dag í dag eru í gildi sömu lagaákvæði um þetta og voru fyrir 20 árum þegar ég hreyfði því í ríkisstjórn sem menntamálaráðherra hvort fara mætti þá leið sem Björt Ólafsdóttir boðar nú. Niðurstaðan var sú að lokinni athugun meðal annars á vegum forsætisráðherra og fjármálaráðherra á þeim tíma að aðferðin sem Björt ætlar að fara vegna stefnu Bjartrar framtíðar í anda gagnsæis og opinnar stjórnsýslu stæðist ekki lög.

Það sem segir í Morgunblaðinu í dag má skilja á þann veg að Björt Ólafsdóttir hafi gefið einhliða yfirlýsingu í ríkisstjórn um nýja starfshætti og við það sitji. 

Í frétt Morgunblaðsins í dag vantar að forstöðumenn stofnana sem heyra undir Björt Ólafsdóttur sem ráðherra hafa þegar komið saman til að ráða ráðum sínum og kanna réttarstöðu sína. Þeir ættu að óska eftir minnisblöðunum sem voru lögð fram í ríkisstjórn um þetta mál á sínum tíma, dagsetningar man ég ekki. Það hlýtur að vera unnt að nálgast þau í anda gagnsæis og opinnar stjórnsýslu.

Gangi Björt Ólafsdóttir fram á þann veg sem hún boðar leiðir það vafalaust til málaferla og þá ákveða dómarar hvernig túlka beri þessi lagaákvæði. Að fá úr því skorið er nauðsynlegt.