10.3.2021 9:26

Bjór frá býli hræðir ÁTVR

Höfundar frumvarpsins leggja sig greinilega í líma við að ganga sáralítið á hlut einokunarfyrirtækisins, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).

Í frumvarpi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram á alþingi er tillaga um að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Frumvarpinu er ætlað að styðja við smærri brugghús, sérstaklega á landsbyggðinni. Tugir smærri brugghúsa starfa um allt land. Þau framleiða fjölbreytt úrval afurða með skírskotun til íslenskrar menningar og staðhátta. Í nágrannalöndum Íslands er smærri brugghúsum almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu, þó með mismunandi takmörkunum. Í Finnlandi tóku til dæmis árið 2018 gildi lög sem heimila sölu áfengs öls á framleiðslustað í smásölu til neytenda með ákveðnum takmörkunum.

Í greinargerð frumvarpsins segir að hér hafi handverksbrugghúsum fjölgað undanfarið. Þetta séu smá brugghús með takmarkaða framleiðslu en áherslu á „gæði og sjálfstæði“. Nú séu á þriðja tug smærri brugghúsa í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa og hafi „eftirspurn og áhugi almennings á innlendri áfengisframleiðslu aukist“ samhliða „umtalsverðri fjölgun á íslenskum áfengisafurðum, þá sérstaklega áfengu öli“. Þessi þróun verður til þess að dómsmálaráðherra, ráðherra áfengismála, ákveður að gera tillögu um breytingu á áfengislögunum til að „styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi“.

Höfundar frumvarpsins leggja sig greinilega í líma við að ganga sáralítið á hlut einokunarfyrirtækisins, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) og segja: „Tillaga um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er því þröng og mun fela í sér tiltölulega litla fjölgun áfengisútsölustaða. Gera má ráð fyrir að sala á grundvelli framleiðslusöluleyfis eigi sér fyrst og fremst stað í tengslum við ferðaþjónustu hjá leyfishafa [handverksbrugghúsi].“

HandverkRíkisrisinn lætur hins vegar ekki svo lítið að una þessum smápeðum að dafna heldur sendir frá sér umsögn um frumvarpið þar sem gefið er til kynna að títuprjónsstungan veiti honum svöðusár sem kunni jafnvel að reynast banvænt. Þetta neyðaróp minnir aðeins á hrópin úr Efstaleiti þegar rætt er um að minnka verði umsvif ríkisrisans þar til að skapa einkareknum fjölmiðlum svigrúm.

Verði bjór frá býli til þess að drepa ÁTVR er risinn valtari á fótunum en áður var vitað. Þjóðhagslega ber að líta til allt annarra þátta í þessu sambandi en nauðsyn þess fyrir ÁTVR að laga sig að sölu á bjór frá býli.

Í nýlegri skýrslu um fæðuöryggi er bent á að hlutfall innlendrar manneldiskornræktar sé aðeins 1% af heildarinnflutningi af kornvörum. Hveiti, sem Íslendingar rækta ekki, er 65% af heildarinnflutningnum. Hér er hins vegar unnt að rækta heilkorn, aukin neysla þess á kostnað hveitis stuðlar að bættri lýðheilsu. Bjórgerð og annað brugg notar mikið korn og þar eru mikil tækifæri til að auka ræktun auk þess sem samkeppni brugghúsa ýtir undir leit að réttum yrkjum og viðleitni til að ná tökum á möltun. Smábrugghús kalla því á vöxt kornræktar, aukna lífræna ræktun, smáiðnað, þjónustu og búsetufestu.