4.6.2022 10:38

Bjargvætturinn Banks

Enn er stríð háð á meginlandi Evrópu og hér er nú hugað að því hvernig birgðir verði best tryggðar og fæðuöryggi. Sama lögmál gildir og fyrir 250 árum.

Föstudaginn 3. júní var opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni: Íslandsleiðangur Sir Joseph Banks 1772-2022 – 250 ár – Fyrsti breski vísindaleiðangurinn sem kom til Íslands. Höfundar sýningarinnar eru Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus í sagnfræði, og Sumarliði Ísleifsson, lektor í sagnfræði- og heimspekideild HÍ.

Anna er meðal fremstu sérfræðinga heims í sögu og ævi Sir Joseph Banks og hefur skrifað um hann á íslensku og ensku. Viðamesta rannsóknarrit hennar er Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic. Journals, Letters and Documents 1772-1820 (útg. Routledge, 2016). Sumarliði er höfundur bókarinnar Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland - viðhorfasaga í þúsund ár (útg. Sögufélag 2020). Þau hafa því bæði mikla þekkingu á viðfangsefninu.

23-Portrait-of-Sir-Jo-large-954x420Sir Joseph Banks.

Í glæsilegri sýningarskrá segir að Banks (1743-1820) hafi verið vellauðugur enskur landeigandi og landkönnuður með brennandi áhuga á grasafræði sem náttúrurfræðingur. Hann tók árin 1768 til 1771„þátt í einni af frægustu landkönnunarferðum sögunnar með James Cook á skipinu Endeavour um Suðurhöf, til Ástralíu og Nýja-Sjálands og umhverfis hnöttinn“. Varð hann frægur af þessari för og heiðursdoktor frá Oxford. Hann sætti sig ekki við aðbúnað um borð í skipi Cooks þegar honum bauðst að fara í annan leiðangur með honum og skipulagði þess í stað, 29 ára, fyrsta breska vísindaleiðangurinn tíl Íslands árið 1772. Hann dvaldist hér í um sex vikur. Frá 1778 var hann í 40 ár forseti Breska vísindafélagsins (Royal Society) og sat í 72 vísindafélögum víða um heim. Hann skrifaðist á við um 3.000 manns, segir í sýningarskránni, meðal annars nokkra Íslendinga og nú er unnið að útgáfu bréfasafns hans, en alls hafa um 20.000 bréf varðveist. Þá segir:

„Hann var merkismaður á sinni tíð, fyrsti Íslandsvinurinn, verndari Íslands á stríðstímum og bjargvættur.“

Í skránni er rakin saga þess þegar Magnús Stephensen „valdamesti Íslendingur sinnar tíðar“ var um borð í herteknu íslensku skipi sem neytt var til hafnar af Bretum vegna hafnbanns þeirra á Dani í Napóleonsstríðinu 1807. Magnús mundi eftir Banks frá því að hann hitti hann 10 ára 1772 og skrifaði honum um yfirvofandi hungursneyð á Íslandi vegna lokunar á aðflutningum. Bað hann Banks um að beita sér fyrir því að herteknu skipin yrðu leyst úr haldi og þeim leyft að halda versluninni áfram.

Banks var í trúnaðarráði Georgs konungs III. og handgenginn stjórn Bretaveldis. „Vegna atorku Banks voru skipin leyst úr haldi og innlimuð í breska leiðabréfakerfið. Á meðan á stríðinu stóð var Íslandsverslunin alfarið undir stjórn Breta,“ segir í ríkulega myndskreyttri sýningarskránni.

Enn er stríð háð á meginlandi Evrópu og hér er nú hugað að því hvernig birgðir verði best tryggðar og fæðuöryggi. Sama lögmál gildir og fyrir 250 árum: Við eigum allt undir vináttu sjóveldanna á Norður-Atlantshafi, Breta og Bandaríkjamanna. Þá skiptir miklu að samstaða sé með Norðmönnum og Íslendingum. Þessar N-Atlantshafsþjóðir standa allar, auk Færeyinga og Grænlendinga, utan ESB og eiga ekki erindi í sambandið til að tryggja hernaðarlegt öryggi sitt. Tal í þá veru stangast á við allt sem sagan kennir.