13.4.2020 11:45

Bjargvættur Gordijevskíjs deyr

Eitt sögulegasta atvikið sem sagt er frá í bókinni snýr einmitt að ráðstöfunum sem MI6, breska njósnastofnunin, gerði til að tryggja að unnt yrði að bjarga Gordijevskíj frá Moskvu.

Nýlega las ég bókina The Spy and the Traitor (útg. 2018) eftir Ben Macintyre. Hún er kynnt af útgefanda sem „mesta njósnasaga sem nokkru sinni hefur verið sögð“. Þetta er ekki orðum aukið. Sagan er einstök og ótrúlegt að söguhetjan Oleg Gordijevskíj, njósnaforingi KGB, sem snerist gegn Sovétríkjunum og var smyglað til Bretlands árið 1985 skyldi halda lífi sem hann gerir enn 81 árs í Bretlandi.

Eitt sögulegasta atvikið sem sagt er frá í bókinni snýr einmitt að ráðstöfunum sem MI6, breska njósnastofnunin, gerði til að tryggja að unnt yrði að bjarga Gordijevskíj frá Moskvu vaknaði grunur innan KGB um að hann léki tveimur skjöldum.

Lýsir höfundur nákvæmri áætlun sem kona í hópi foringja MI6 samdi og var farið eftir árum saman, Operation Pimlico, þar til á hana reyndi og framkvæmd hennar heppnaðist á ævintýralegan hátt.

Á þetta er minnst hér því að nýlega var frá því skýrt í The Times í London að rétt nafn konunnar sem stóð að baki Operation Pimlico væri Valerie Pettit og hefði hún látist fyrir nokkru 90 ára að aldri í smáþorpi skammt frá London. Þar bjó hún árum saman, kirkjurækin gömul kona, án þess að nokkurn grunaði að þar færi ein fremsti njósnaforingi Breta.

Oleg-gordievskyElísabet Bretadrottning sæmdi Gordijevskij heiðursmerki fyrir þjónustu hans.

Þegar Oleg Gordijevskíj gekk í lið með bresku leyniþjónustunni (1974) starfaði hann sem KGB-maður í sovéska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Danska öryggislögreglan PET átti aðild að umturnun hans allt frá upphafi.

Talið er að með aðstoð Gordijevskijs hafi tekist að koma upp um meira en 400 KGB-starfsmenn í mörgum löndum. PET fékk upplýsingar um 273 Dani sem höfðu tengsl við KGB eða Sovétríkin.

Í Morgunblaðinu var 18. nóvember 1990 sagt frá því, að blaðamaður þess hefði rætt við Oleg Gordijevskíj og spurt hann um samband KGB og Íslands. Hann sagðist hafa deilt herbergi í höfuðstöðvum KGB í Moskvu með Gergel, fyrrverandi yfirmanni KGB á Íslandi. Í Morgunblaðinu stóð:

„Það var talað um að KGB hefði tekist að koma á leynilegu trúnaðarsambandi við fjóra menn á Íslandi. Ég man að einn þeirra var í Alþýðubandalaginu og annar í stærsta stjórnmálaflokki landsins og ég man einnig greinilega að Framsóknarflokkurinn var nefndur. Að auki hafði tekist að koma slíku sambandi á við einn þeirra sem stóð framarlega í íslensku friðarhreyfingunni,“ sagði Oleg Gordijevskíj.“

Hann sagði að þetta hefðu verið starfandi stjórnmálamenn. Þetta hefðu ekki verið „eiginlegir njósnarar“. KGB-menn hefðu ekki mátt ráða „íslenskra uppljóstrara“ vegna smæðar landsins. Þeir stofnuðu þess í stað til „leynilegs trúnaðarsambands“ við fólk og hittu það á heimilum KGB-manna í Reykjavík. „Þetta fólk hefði ekki verið á mála hjá KGB en þegið gjafir við ýmis tækifæri og ferðir til Sovétríkjanna,“ segir í blaðinu.