27.5.2023 9:41

Bjargar spjallmenni ráðherra

Á bandarísku vefsíðunni Axios birtist föstudaginn 26. maí útlistun á áhrifum gervigreindar á fjölmiðlun og var því spáð að fyrirtæki sem tileinkuðu sér greindina mundu halda lífi og þrífast

Lilja Dögg Alfreðsdóttir fjölmiðlaráðherra hefur skipt um skoðun frá í fyrra og vill nú að RÚV verði áfram á auglýsingamarkaði því að annars aukist auglýsingatekjur Facebook og Google. Hún hefur engin ráð til að skattleggja þær tekjur.

Ráðherrann er áhugasöm um gervigreind. Hún ætlar kannski að láta hana leysa fjölmiðlavandann fyrir sig. Hér segir að lausnin sé ef til vill ekki langt undan.

Artificial_Intelligence_-_AI_-_Machine_Learning_-_30212411048

Á bandarísku vefsíðunni Axios birtist föstudaginn 26. maí útlistun á áhrifum gervigreindar á fjölmiðlun og var því spáð að fyrirtæki sem tileinkuðu sér greindina og löguðu hana að hraðfara breytingum á venjum neytenda mundu halda lífi og þrífast. Átta breytingingar eru nefndar:

1. Sérfræðiþekking. Miðlun á almennum fróðleik víkur fyrir sívaxandi kröfum um að komið sé til móts við sérgreind áhugamál og sérþekkingu.

2. Traust. Spjallmenni munu ausa út tilbúnu og tilreiddu efni. Lesendur leita að öruggum upplýsingalindum frétta sem vekja með þeim traust, beint en ekki í gegnum hliðardyr á samfélagssíðum. Auglýsendur vilja örugg, vel upplýst svæði og þess vegna kasta sumir miðlar á brott rusli sem þeir sitja uppi með í dag. Þegar má sjá merki um þetta.

3. Bein tengsl. Innan skamms fá notendur frábær, fullmótuð svör við netspurningum til spjallmenna. Svarað er efnislega en ekki með ábendingu um krækju. Lögð verður rækt við náin tengsl við þá sem nota sérgreindar síður, almennar miðlunarsíður víkja.

4. Tölvupóstur. Fréttabréf í áskrift verða mikilvægari þegar Microsoft og Google skapa töfraráð til að skrifa, svara og flokka tölvubréf. Sumir telja að heimasíður á vefnum verði einnig mikilvægari. Það samrýmist þó ekki áhuga neytenda á að fá efni sent til sín.

5. Heilbrigt efni. Sjónvarpsefni og margar fréttasíður eru of dapurlegar. Neytendur vilja betri blöndu, þar á meðal heilbrigt og hvetjandi efni.

6. Skilvirkni. Neytendur vilja að fréttum og gagnlegum upplýsingum sé miðlað á eins skilvirkan hátt og kostur er. Krafa um þetta eykst þegar nýja tæknin verður ágengari. Miðlun myndfrétta breytist, hefðbundnir sjónvarpsfréttatímar víkja fyrir styttri fréttum sem neytendur kalla sjálfir fram á skjám sínum.

7. Meiri dýpt. Þegar flest efni styttist hafa neytendur meiri tíma fyrir hlaðvörp og dýpri efnistök líkt og í tímaritsgreinum. Krafa um að þetta sé hágæðaefni í þágu neytandans eykst. Moðsuðugreinar blaðamanna fyrir þá sjálfa eða uppfyllingarefni í eyðu á vefsíðu hverfa.

8. Upplýsingabilið. Kröfuharðir lesendur hafa aldrei áður fengið betra tækifæri til að fá hágæða efni sent af skilvirkni og í sívaxandi mæli. Jafnframt hefur aldrei verið auðveldara að skapa og dreifa ómerkilegum, ógeðfelldum og ótraustum upplýsingum í stórum stíl fyrir smápening. Hraðinn á þessari þróun eykst.

Að lokum: Ekki bíða eftir að fyrirtæki, stjórnvöld eða samfélagsmiðlar ákveði hvað sé hágæðaefni. Ákveðið sjálf hvers þið neytið með því að leita í góða efnið – og útiloka ruslið.

Áttið ykkur á hvað er á næsta leiti!