Biskup Íslands á gráu svæði
Síðara kjörtímabili núverandi biskups lauk sumarið 2022 og hefði þá með réttu átt að efna til biskupskjörs.
Með lagabreytingu árið 2019 fékk kirkjuþing svigrúm til 1. apríl 2020 til að setja starfsreglur sem kæmu í stað lögbundinna reglna um starfskjör biskups, vígslubiskupa og presta auk annarra sem teldust ekki lengur starfsfólk ríkisins. Þjóðkirkjan væri sjálfstætt trúfélag og réði innri málefnum sínum.
Í lögum um þjóðkirkjuna frá 2021 segir að um biskupskjör fari eftir starfsreglum sem kirkjuþing setji.
Nýjar starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa tóku gildi 1. janúar 2022. Í 8. gr. reglnanna segir að kjörstjórn ákveði með samþykki forsætisnefndar kirkjuþings hvenær kjörgögn skuli send þeim sem kosningabærir séu við kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa.
Þetta orðalag er túlkað þannig af starfsmönnum biskupsstofu að það sé í hendi kjörstjórnar að ákveða dagsetningu biskupskjörs. Hvað sem um þá túlkun má segja er skrýtið að starfsreglurnar séu ekki skýrari um þetta mikilvæga atriði og við gildistöku reglnanna hafi ekki verið ákveðinn starfstími núverandi biskups.
Í yfirlýsingu frá biskupsritara og lögfræðingi hans dags. 26. júlí segir vegna umræðna um réttarstöðu núverandi biskups að fyrir liggi að kjörstjórn þjóðkirkjunnar hafi nýlega boðað til biskupskosninga, eftir að biskup Íslands tilkynnti um starfslok sín árið 2024 í nýárspredikun sinni. Kosið verði fyrri hluta næsta árs. Þar til niðurstaða fáist úr þeim kosningum og formleg biskupsskipti hafi farið fram hafi biskup Íslands fullt umboð.
Eins og sést af tilvitnaðri grein í starfsreglum um biskupskjör snýr vald kjörstjórnar aðeins að því að ákveða hvenær kjörgögnum vegna biskupskjörs skuli dreift. Hefur kjörstjórn ákveðið og forsætisnefnd kirkjuþings samþykkt dreifingu kjörgagna nú þegar? Þarf ekki fyrst að liggja fyrir hverjir eru í framboði? Beið kjörstjórnin í raun eftir að núverandi biskup tilkynnti hvenær hún vildi hætta?
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).
Síðara kjörtímabili núverandi biskups lauk sumarið 2022 og hefði þá með réttu átt að efna til biskupskjörs. Í stað þess samdi forseti kirkjuþings að höfðu samráði við lögfræðinga um að biskup sæti eitt ár til viðbótar til 1. júlí 2023. Frá þeim tíma situr biskup í krafti ráðningarsamnings við starfsmann biskupsstofu og hefur biskup sjálf ákveðið að hún sitji fram í október 2024. Forseti kirkjuþings viðurkennir að samningur hennar frá 2022 hafi fært starfsumboð biskups á grátt svæði. Forsætisnefnd kirkjuþings var ekki höfð með í ráðum þegar ráðningasamningurinn við biskup var gerður nú fyrir 1. júlí 2023.
Þegar biskupsritari var spurður í Morgunblaðinu 26. júlí hvort honum þætti til fyrirmyndar að undirmaður biskups gerði ráðningarsamning við sjálfan biskupinn, yfirmann sinn, svaraði hann hofmóðugur: „Yfirmaður biskups Íslands er íslenska þjóðin.“
Með slíka veraldlega ráðgjafa við hlið sér þarf ekki að undra að biskupinn fari inn á ótroðnar slóðir. Íslenska þjóðin hefur einfaldlega ekkert um val á biskupi Íslands að segja og lítur örugglega ekki á sig sem neinn yfirmann hans.