29.4.2021 11:21

Birtir með bólusetningum

Mikil ánægja er greinileg hjá mörgum að fá sprautuna og er enginn vafi á að þessi vika með miklum fjölda bólusetninga léttir lund landsmanna.

Mesta bólusetningarvikan til þessa hér á landi er núna. Myndir birtast úr Laugardalshöll af þúsundum á besta aldri sem streyma þangað til að fá fyrri sprautuna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var hylltur með lófataki í gærmorgun (28. apríl) þegar hann fékk fyrri skammtinn af AstraZeneca-bóluefninu.

Umræður um AstraZeneca hafa verið á svo neikvæðum nótum að þeir sem það fá telja sumir að þeir hafi alls ekki verið sprautaðir verði þeir ekki veikir eða líði illa. Sögusagnir eru miklar en rauntölur segja sitt.

Á mbl.is í dag (29. apríl) er sagt frá svari Lyfjastofnunar Íslands við fyrirspurn blaðsins og þar kemur fram að alls hafi 50 tilkynningar borist stofnuninni varðandi mögulegar alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetninga við Covid-19. Af þeim eru 16 andlát og níu vegna blóðtappa. Af látnum eru langflestir aldraðir og eða fólk með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma.

Þá segir einnig að af öllum alvarlegu tilkynningunum vegna gruns um aukaverkun hafi alls borist níu tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19: fimm fyrir Vaxzevria (AstraZeneca), þrjár fyrir Comirnaty (BioNTech/​Pfizer) og ein fyrir bóluefni Moderna.

1271047Kristinn Magnússon á mbl.is tók þessa mynd við bólusetningu í Laugadalshöll miðvikudaginn 28. apríl.

Langflestir hafa verið bólusettir með bóluefni Pfizer en mjög fáir með bóluefni Moderna. Byrjað var að bólusetja með bóluefni Janssen 28. apríl og ekki komin nein reynsla á það hér. Nú eru 34.492 eru fullbólusettir á landinu, 11,7% landsmanna og bólusetning hafin hjá 52.546 einstaklingum. Alls hafa verið gefnir 121.530 skammtar af bóluefni á Íslandi frá því að bólusetning hófst í lok desember 2020 en þessar tölur eru frá morgni 29. apríl, segir á mbl.is.

Mikil ánægja er greinileg hjá mörgum að fá sprautuna og er enginn vafi á að þessi vika með miklum fjölda bólusetninga léttir lund landsmanna. Þá gleður það einnig þá sem fara í Laugardalshöllina til bólusetningar hve allt gengur þar hratt, skipulega og snurðulaust fyrir sig. Eflir það sjálfstraust þjóðarinnar að kynnast því að unnt sé að leysa svo stórt verkefni að því er virðist á einfaldan hátt vegna þess hve fumlaust og af miklum aga er gengið til verks.

Allt þetta ásamt hópeflinu sem skapast meðal þeirra sem leggja leið sína fótgangandi að jarðeldunum á Reykjanesi ýtir til hliðar kvíða vegna frétta um að veiran hafi skotið sér niður á Suðurlandi.

Reynslan kennir að best sé að taka eitt skref í einu og ekki fagna fyrr en með örugglega fast land undir fótum. Festan eykst með hverjum góðum bólusetningardegi.

Nærtækast er fyrir okkur að taka mið af reynslu Breta. Í fréttum þaðan segir að lítill vafi sé á því að Bretum takist að binda enda á vandann vegna faraldursins hjá sér fyrr en síðar. Í gær birtu bresk heilbrigðisyfirvöld niðurstöðu raunrannsóknar sem sýnir að með einni sprautu af COVID-bóluefni sé unnt að minnka líkur á smiti um allt að helming. Þessi niðurstaða gjörbreyti afléttingaráætlun breskra stjórnvalda sem birt var fyrir nokkrum vikum en þar var miðað við afléttingu 21. júní 2021, nú kunni þetta að gerast fyrr.