Birta yfir máltækni
Í dag er víða bjart í íslensku þjóðlífi þrátt fyrir eltingarleik of margra við skuggahliðarnar. Hér verður vikið að grein sem vekur bjartsýni.
Gleðilegt sumar!
Í dag er víða bjart í íslensku þjóðlífi þrátt fyrir eltingarleik of margra við skuggahliðarnar. Hér verður vikið að grein sem vekur bjartsýni.
Hlynur Þór Agnarsson, aðgengis- og upplýsingafulltrúi Blindrafélagsins, skrifar grein í Víðsjá - rit Blindrafélagsins samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, 1. tölublað 2022 undir fyrirsögninni: Framtíðin er björt fyrir íslenska tungu í tækniheiminum.
Mynd af vefsíðu Rannís.
Þar greinir hann frá árangri sem náðst hefur á sviði máltækni á undanförnum árum. Núgildandi fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda (2018 til 2022) lýkur nú í haust.
Hlynur Þór segir að á þessu sviði hafi meira áunnist en margir haldi og nefnir dæmi því til stuðnings:
Talgreinir. Tvær lausnir: (1) sjálfvirk talgreining fyrirtækisins Tiro sem breytir töluðu máli í texta sem hægt er að vinna með. Lausnina má skoða og prófa á vefnum tal.tiro.is. (2) Smáforritið Embla sem á íslensku tekur við munnlegum fyrirspurnum og svarar. Þetta nær til almennra útreikninga, umbreytinga mælieininga, upplýsinga um veður, ferðir Strætó, opnunartíma stofnana og fyrirtækja, fjarlægða frá stöðum og heimilisfanga og hve langan tíma tekur t.d. að ganga, hjóla eða aka þangað.
Talgervingar. Tvær nýjar íslenskar raddir, Álfur og Diljá, heyrast nú og von er á mun fleiri á komandi misserum. Gífurleg vinna hefur verið lögð í hágæðaupptökur á fjölda mismunandi radda til að tryggja hámarksgæði og gott úrval þegar kemur að vali á talgervilsröddum.
Vélrænar þýðingar. Google Translate þýðingartólið hefur verið í fararbroddi vélrænna þýðinga. Nú hefur íslenski vefurinn Vélþýðing.is verið opnaður og þýðir hann texta frá íslensku yfir á ensku og öfugt. Munur er á þessum tólum eins og Hlynur Þór nefnir með þýðingu á setningunni: „I wonder how they got to this conclusion“. Google Translate gaf þýðinguna: „Ég velti því fyrir mér hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu“ en Vélþýðing.is þýddi hana svona: „Hvernig ætli þeir hafi komist að þessari niðurstöðu“. Vélþýðing.is er enn í þróun. Slóðin á Google Translate er translate.google.com og Vélþýðing.is er www.velthyding.is.
Yfirlestur og leiðréttingar. Á vefsíðunni Yfirlestur.is má með einföldum hætti afrita texta og láta lausnina lesa hann yfir. Vefurinn gefur ábendingar um ýmislegt sem betur má fara. Vefslóðin er www.yfirlestur.is
Þegar fyrst var tekið á þessum málum í menntamálaráðuneytinu fyrir um aldarfjórðungi töluðum við um tungutækni. Þá var ákveðið að ýta undir frumkvæði einstaklinga á þessu sviði og leita samstarfs við Microsoft helsta tæknirisann á þeim tíma. Árangurinn er mikill og góður.
Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og breytingarnar hafa orðið stórar og hraðar. Nýjar lausnir gagnast ekki síður litlum málsvæðum en stórum. Í þessu efni er þó brýnt að halda vöku sinni og ýta áfram undir frumkvæði og nýsköpun. Er gert ráð fyrir framhaldi máltækniverkefnisins í stjórnarsáttmálanum frá 28. nóvember 2021.