Bifreiðaskoðun og EES-reglur
Brýnt er að skerpa alla meðferð EES-mála innan íslenska stjórnkerfisins. Bæði til að meðalhófs sé gætt og til að tryggja fyrirvara séu þeir nauðsynlegir.
Breyting verður á skoðunarreglum bifreiða 1. janúar 2022 í samræmi við reglur sem settar voru innan ESB árið 2014 og urðu hluti EES-reglna árið 2015. Reglugerð nr. 414/2021 um skoðun ökutækja reist á þessum EES-reglum tók gildi hér 1. maí 2021. Ákveðin atriði reglugerðarinnar koma til framkvæmda 1. janúar 2022 og hafa orðið nokkrar umræður um áhrif þeirra í Morgunblaðinu.
Reglur um bifreiðaskoðun breytast um áramótin vegna samstilltra EES-reglna (mynd mbl).
Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar, segir lítið samráð hafa verið haft um nýju reglurnar við skoðunarstöðvar bifreiða. Nefnir hann sem dæmi um smásmygli í reglunum að vanti annað númeraljós á bifreið kalli það á endurskoðun. Skortur á slíku ljósi hafi ekki áhrif á umferðaröryggi og fleira er nefnt til sögunnar sem ekki skal rakið hér. Ómar segir einnig:
„Svo virðist sem samgönguyfirvöld hafi ekki nýtt sér neinar undanþáguleiðir til að sníða þetta að íslenskum aðstæðum og gera mildara fyrir almenning. Margar aðrar þjóðir hafa nýtt sér slíkar undanþágur.“
ESB gaf í mars 2011 út hvítbók með það að markmiði að koma nánast alveg í veg fyrir dauðaslys í flutningum á vegum eigi síðar en 2050. Var talið að tækni ökutækja ætti stóran þátt í því að stuðla að úrbótum á sviði öryggis við flutninga á vegum.
Í samræmi við þessa stefnu hófst undirbúningur að setningu reglna um þetta efni. Þar yrði þess krafist að ökutæki á opinberum vegum væru aksturshæf við notkun. Handhafi skráningarvottorðs og, eftir atvikum, rekstraraðili ökutækisins, ættu að bera ábyrgð á að halda því í aksturshæfu ástandi.
Um þetta snýst málið. Ómar Pálmason telur að íslensk stjórnvöld gangi lengra en skylt sé samkvæmt þessum reglum. Er það ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld eru sökuð um að gæta ekki meðalhófs við innleiðingu EES-reglna heldur nota þær til auka eftirlitsvald sitt til hins ítrasta.
Ef þurft hefði íslenskan fyrirvara við þessar reglur við gerð þeirra fyrir um 10 árum hjá ESB er ólíklegt að stjórnvöld hefðu verið með hugann við það í ESB-aðildarferlinu.
Nú liggja fyrir skýrar tillögur um hvernig standa eigi að því innan íslenska stjórnkerfisins að tryggja að á réttum tíma, með sterkum rökum og á réttum vettvangi sé tryggt að íslensk sjónarmið fái viðurkenningu við mótun EES-reglna. Fyrirvarar á mótunarstigi standa þegar mál komast á ákvörðunarstig og þannig er sérstaðan tryggð á réttum stað og tíma.
Brýnt er að skerpa alla meðferð EES-mála innan íslenska stjórnkerfisins. Bæði til að meðalhófs sé gætt og til að tryggja fyrirvara séu þeir nauðsynlegir. Utanríkisráðuneytið sér um tengslin út á við en fagráðuneyti og stofnanir þeirra fylgjast með gangi mála hvert á sínu sviði frá fyrsta stigi og gæta innlendra sérsjónarmiða í umboði ráðherra sem verða að sýna málefninu áhuga og taka af skarið. Til að halda utan um þennan lykilþátt þarf að viðurkenna EES-aðildina sem hluta af verkefnum hvers einstaks ráðuneytis. Efla þarf innlenda EES-stoð samhliða stoðinni sem snýr út á við á ábyrgð utanríkisráðherra.
Við boðaða endurskoðun á stjórnarráðslögunum ætti að líta til þess hvernig innlenda EES-stoðin sé best vistuð innan stjórnkerfisins
í þeim tilgangi að tryggja markvissa og tímabæra hagsmunagæslu og að EES-reglur séu ekki innleiddar án meðalhófs.