7.6.2023 9:21

Biðlistar til vinsælda

Þess verður örugglega ekki langt að bíða að borgarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að biðlistarnir séu til marks um vinsældir hans.

Í pistli hér á síðunni sagði mánudaginn 5. júní 2023:

„Ofstjórnar- og skömmtunarkerfi hvort sem er á sviði heilbrigðismála eða við stjórn sveitarfélaga skapa einnig biðlistakerfi. Þegar hafnað er eðlilegu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila hleypur líf í biðlistakerfin og tilvist listanna skapar síðan öryggistryggingu fyrir þá sem sinna þeim. Til verða biðlistahagsmunir meðal þeirra sem starfa innan opinbera kerfisins. Þeir verða að lokum talsmenn þess að biðlistarnir hverfi ekki og skapi þeim sjálfum öryggisleysi.

Nær væri að tala um teymisstjórn biðlistaborgarinnar í ráðhúsinu en að kenna umsýslu við úthlutun lóða sem hvergi er að finna við athafnaborg.“

Í Morgunblaðinu í dag (7. júní) er rætt við Björn Zoëga lækni, forstjóra Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, um góðan árangur sem náðst hefur undir hans forystu við rekstur sjúkrahússins. Undir lok samtalsins er vikið að biðlistum. Þar segir:

„Þegar ég kom úr sumarfríi í fyrra þá kallaði ég stjórnendur mína til fundar og spurði hvort við ættum ekki að losa okkur við biðlistana sem safnast höfðu upp á spítalanum,“ rifjar Björn upp.

„Það var ekki einhugur um að þetta væri góð hugmynd og þegar við bárum þetta undir fleiri stjórnendur virtust sumir á þeirri skoðun að biðlistar væru æskilegir. Þeir gæfu til kynna að fólk kynni að meta þjónustuna og leitaði til okkar frekar en annarra. Ég er hins vegar sannfærður um að batahorfur fólks séu betri eftir meðferð en fyrir. Eftir allmikla vinnu vorum við búin að hugsa leiðir til að vinna á þessum biðlistum eftir aðgerðum en þeir voru 88 talsins og leiddu til mánaðalangrar biðar eftir þjónustu. Núna ári síðar eru listarnir sem eftir eru sex talsins. Þetta var hægt án þess að keyra fólk gjörsamlega út þótt þetta hafi reynt á. Þetta hefur hins vegar gert okkur stoltari og einbeittari í að ná framúrskarandi árangri.“

Í þessum orðum er lýst frábærum árangri á ótrúlega skömmum tíma við að skera niður biðlista og bæta heilsu og líðan þeirra sem njóta þjónustu Karólínska sem er nú besta sjúkrahús Evrópu samkvæmt alþjóðlegum gæðalistum.

Orð forstjórans sýna einnig annað: Sumir samstarfsmenn hans í hópi stjórnenda voru þeirrar skoðunar „að biðlistar væru æskilegir. Þeir gæfu til kynna að fólk kynni að meta þjónustuna og leitaði til okkar frekar en annarra“.

Bipd

Þarna er vikið að því sem hér var nefnt sl. mánudag og vitnað er til í upphafi textans í dag: Til verður trú á réttmæti og gildi biðlista á meðal þeirra sem hafa í hendi sér að viðhalda þeim eða eyða. Á Karólínska töldu sumir það til marks um ágæti þjónustunnar á sjúkrahúsinu að svona margir biðu eftir að njóta hennar, listarnir væru í raun gæðastimpill.

Þetta skyldi þó ekki vera viðhorfið í ráðhúsi Reykjavíkur? Þar minnir „teymisstjórnar athafnaborgarinnar“ menn á hvar þeir eru á biðlistanum og segir að þeir fái aðeins sérstaka meðferð sem borgarstjórinn kann að meta og raðar í vísindagarða eða á Gufunesið.

Þess verður örugglega ekki langt að bíða að borgarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að biðlistarnir séu til marks um vinsældir hans.