5.6.2023 9:01

Biðlistaborgin Reykjavík

Í ráðhúsi Reykjavíkur eru þeir kallaðir „teymisstjórn athafnaborgarinnar“ sem raða þeim á biðlista sem hafa áhuga á að láta til sín taka við verklegar framkvæmdir.

Nú er svo komið að bið eftir heilsuþjónustu í Reykjavík er svo löng að stundum er ekki lengur unnt að fá sig skráðan á biðlista eftir að komast á biðlista.

Í ráðhúsi Reykjavíkur eru þeir kallaðir „teymisstjórn athafnaborgarinnar“ sem raða þeim á biðlista sem hafa áhuga á að láta til sín taka við verklegar framkvæmdir. Á sama tíma og borgarstjóri reddar vildarvinum lóðum í Vatnsmýrinni eða á Gufunesi hefur teymisstjórnin auga með því að allir séu jafnir á biðlistunum og áróðursmenn borgarstjórans minna á að útboð séu meginreglan við ráðstöfun lóða í borginni.

Athygli hefur beinst að stjórnsýslunni vegna lóðanna eftir að Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, lýsti samskiptum sínum við borgaryfirvöld í Morgunblaðinu fyrir helgi. Verktakinn sótti um lóð undir 900 hagkvæmar íbúðir og fékk það svar frá teymisstjóra athafnaborgarinnar að hann yrði að fara á biðlistann. Teymisstjórinn, Óli Örn Eiríksson, sagði við Morgunblaðið að nóg framboð væri af lóðum í borginni. Hins vegar væri ekki hægt að hleypa einstaka verktökum fram fyrir í biðlistaröðinni.

Standing-in-Long-Line

Í Morgunblaðinu í dag (5. júní) segir Þorvaldur Gissurarson að teymisstjórinn fari með rangt mál, engar óseldar lóðir séu í borginni, ekki sé unnt að kaupa eina einustu lóð, ekki undir eitt hús, því síður 900 íbúðir. Einkaaðilar vilji ef til vill selja lóðir á þéttingarreitum, slíkar lóðir séu þó ekki sýnilegar og hver lóð kosti um eða yfir 200 þúsund á fermetra. Þorvaldur segir:

„Við erum alls ekki að óska eftir að komast fram fyrir í röðinni, við erum einfaldlega að bjóðast til að leggja til samfélagsins og byggja ódýrt húsnæði og bjóða ódýrt leiguhúsnæði án þess að borgin eða hið opinbera þurfi að niðurgreiða, líkt og nú er gert.“


Ofstjórnar- og skömmtunarkerfi hvort sem er á sviði heilbrigðismála eða við stjórn sveitarfélaga skapa einnig biðlistakerfi. Þegar hafnað er eðlilegu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila hleypur líf í biðlistakerfin og tilvist listanna skapar síðan öryggistryggingu fyrir þá sem sinna þeim. Til verða biðlistahagsmunir meðal þeirra sem starfa innan opinbera kerfisins. Þeir verða að lokum talsmenn þess að biðlistarnir hverfi ekki og skapi þeim sjálfum öryggisleysi.

Nær væri að tala um teymisstjórn biðlistaborgarinnar í ráðhúsinu en að kenna umsýslu við úthlutun lóða sem hvergi er að finna við athafnaborg.

Í Morgunblaðinu í dag er sú spá höfð eftir ónafngreindum verktaka „að nafnverð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni hækka um 20% á næstu tveimur árum“. Segir verktakinn að fyrir þessu séu „fyrst og fremst framboðsskortur og mikill aðflutningur á fólki“.

Afneitun meirihluta borgarstjórnar nær til beggja þessara þátta. Það er hreinlega ekki viðurkennt í ráðhúsinu að lóðir skorti. Tölur sýna að aðflutning fólks megi rekja til aðkomumanna frá útlöndum. Meirihlutinn vill fjölga þeim sem mest. Fyrir nokkru kynnti Dagur B. Eggertsson að hann ætlaði að bregðast við hælisleitendum með skjólgörðum (les: flóttamannabúðum). Skyldi borgarstjóri hafa skráð skjólgarðana á lóðabiðlistann? Eða er kannski kominn biðlisti eftir að komast á biðlista í ráðhúsinu?