3.1.2024 9:23

Bessastaðaballið byrjar

Vegna þess hve lítið þarf til að komast inn í hringinn þegar flautað er til forsetakjörs birtast þar margir sem eiga í raun ekkert erindi í embættið en líta á baráttuna um það sem tækifæri til að vekja athygli á sjálfum sér eða einhverju hjartans máli sínu. 

Guðni Th. Jóhannesson, fráfarandi forseti Íslands, sagði í samtali við ríkissjónvarpið að kvöldi 2. janúar að hann hefði ekki séð tilefni til þess í tíð sinni á Bessastöðum að synja lögum staðfestingar. Sér hefðu vissulega borist áskoranir í þá veru en þær hefðu aldrei verið bornar fram af þeim þunga að hann hefði séð ástæðu til að verða við þeim. Þá sagði Guðni Th.:

„Og svo sjáum við hvað gerist í tíð næsta forseta. En það leiðir náttúrulega hugann að því að stjórnarskrármál hér á Íslandi eru í sjálfheldu og kaflinn um þjóðhöfðingjann þarfnast endurskoðunar. Og hefur gert það frá lýðveldisstofnun.“

Færði forsetinn ýmis rök fyrir þessari skoðun sinni og nefndi sem „algerlega úrelt dæmi“ að forseti geti veitt undanþágu frá lögum. Þá finnst forseta ákvæðin um handhafa forsetavalds tímaskekkja og einnig nefndi hann ákvæðið í stjórnarskránni um að frambjóðendur til forseta skuli „hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000“.

Allir eru sammála um að þessi þröskuldur sé alltof lágur en vegna jaðarsjónarmiða sem oft birtast þegar talið berst að endurskoðun stjórnarskrárinnar eru þeir sem telja að líta beri á meginsjónarmið en ekki kollvarpa stjórnskipaninni of hikandi við að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum.

IMG_9102_1704273745322

Stjórnarskrárbröltið sem hófst að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vorið 2009 sýndi að auðveldara er að lenda í blindgötu við breytingar á stjórnarskránni en að rata úr henni.

Vegna þess hve lítið þarf til að komast inn í hringinn þegar flautað er til forsetakjörs birtast þar margir sem eiga í raun ekkert erindi í embættið en líta á baráttuna um það sem tækifæri til að vekja athygli á sjálfum sér eða einhverju hjartans máli sínu. Þegar Guðni Th. var kosinn árið 2016 voru níu frambjóðendur í kjöri.

Hér skal engu spáð um fjölda frambjóðenda að þessu sinni. Líklegt er að þeir birtist hver af öðrum á komandi vikum.

Skýrt var frá því í gær að Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og hæstaréttarlögmaður, hefði boðað til blaðamannafundar á heimili sínu í dag (3. janúar). Fundurinn varðaði stórar ákvarðanir sem hann hefði tekið um mikilvæg mál.

Að öllum líkindum tilkynnir Arnar Þór þar framboð sitt til forseta Íslands. Baráttumál hans snúa til dæmis að andstöðu við framkvæmd aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og við aðildina að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Í kosningabaráttunni sér hann tækifæri til að reifa þessi sjónarmið sín og næði hann kjöri mundi hann væntanlega beita synjunarvaldi forseta og láta til dæmis reyna á EES-mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forsetaembættið er sameiningartákn þjóðarinnar við hliðina á þjóðfánanum og þjóðsöngnum. Að ala á sundrung um einstök löggjafarmál í baráttunni um setu í embættinu er í andstöðu við eðli embættisins. Vilji menn auka pólitíska vigt forseta eiga þeir að byrja á því að krefjast stjórnarskrárbreytinga.