3.7.2017 9:56

Bertel Haarder gagnrýnir danska fjármálaráðuneytið

Ég þekki ekki hvernig málum er nú háttað innan íslenska stjórnarráðsins en almennt séð kunni ég vel við ramma-aðferðina við gerð og framkvæmd fjárlaga og taldi mig hafa svigrúm innan hennar til að forgangsraða innan ráðuneyta sem ég stýrði.

Enginn hefur setið lengur sem ráðherra í sögu Danmerkur en Bertel Haarder (22 ár) hann er í Venstre-flokknum (mið-hægri) og hvarf úr ríkisstjórn haustið 2016 án þess að vilja það. Átti að gera hann að ræðismanni Dana í Slesvík-Holstein en hann hafnaði því. Laugardaginn 1. júlí gekk hann fram fyrir skjöldu og gagnrýndi sívaxandi völd danska fjármálaráðuneytisins og sagði til dæmis næstum tilgangslaust að skipa einhvern í embætti menningarmálaráðherra í Danmörku, fjármálaráðuneytið teldi sig vita allt betur en hann. Stundum hefði sér dottið í hug að nóg væri að hafa eitt ráðuneyti: fjármálaráðuneytið.

Hann fagnar því að tekist hafi að koma í veg fyrir opinberan hallarekstur í Danmörku og eigi fjármálaráðuneytið lof fyrir það. Hann dregur hins vegar ekki af sér í gagnrýni á ráðuneytið fyrir að vilja ráða öllu, stóru og smáu. Þetta gangi nú alveg um þverbak. Hann segir að á níunda áratugnum þegar hann var menntamálaráðherra hefði fjármálaráðuneytið ekki látið sig dreyma um að hafa afskipti af því hvernig staðið væri að framkvæmd sparnaðarkrafna í skólakerfinu. Nú segði ráðuneytið ekki aðeins hve mikið ætti að spara heldur einnig hvernig það skuli gert.

Haarder segist hafa verið sáttur við fjárlög sem reist voru á römmum fyrir hvert ráðuneyti og oft hafi ráðuneyti hans haldið sig innan rammans og hann hafi ekki alltaf verið á höttunum eftir meira fé en ráðið innan síns ramma. Það hafi hann ekki mátt sem menningarmálaráðherra. Þá hafi fjármálaráðuneytið gripið fram fyrir hendur á honum þegar hann ætlaði að framkvæma 2% niðurskurðarkröfu með því að spara meira á einum lið til að hafa svigrúm á öðrum. Þetta hafi embættismenn fjármálaráðuneytisins bannað.

Í danska þinginu var 9. maí samþykkt að einstök ráðuneyti hefðu svigrúm til nýsköpunar á sínu sviði og er litið á þetta sem viðvörun til fjármálaráðuneytisins. Haarder segir að menn eigi ekki að benda á embættismenn ráðuneytisins heldur beina orðum sínum til fjármálráðherrans sjálfs, hann stjórni ráðuneytinu og beri ábyrgð á því sem þar gerist.

Ég þekki ekki hvernig málum er nú háttað innan íslenska stjórnarráðsins en almennt séð kunni ég vel við ramma-aðferðina við gerð og framkvæmd fjárlaga og taldi mig hafa svigrúm innan hennar til að forgangsraða innan ráðuneyta sem ég stýrði. Á hinn bóginn færðu embættismenn fjármálaráðuneytisins sig stundum meira upp á skaftið en ég taldi góðu hófi gegna og undraðist hve langt var gengið. Jafnvel þótt skilningur minn eftir samtöl við ráðherra þeirra væri annar en birtist í raun.

Eitt mál af þessu tagi sýnist mér enn til vandræða, skilji ég fréttir rétt, og snertir það framkvæmd samnings um fjármögnun á starfsemi kirkjugarða. Er mér óskiljanlegt að ágreiningur um hana sé ekki löngu úr sögunni miðað við samkomulag sem lá fyrir á sínum tíma.