17.3.2022 10:24

Bergmálshellir ESB-aðildarsinna

Það er ómaklegt og vanvirða við málstað Úkraínumanna og samstöðuna þeim til stuðnings og þjóðaröryggisstefnu Íslands á örlagastund að ESB-aðildarsinnar hefji að nýju sundrungariðju sína án málefnalegra ástæðna.

Fréttablaðið breytist í einskonar ESB-bergmálshelli á fimmtudögum þegar þeir kallast á Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ritstjóri, blaðsins. Samhugurinn kviknaði opinberlega 24. febrúar 2022 þegar Pútin gaf fyrirmæli um allsherjar innrás í Úkraínu. Þeir félagar telja hana kjörið tækifæri til að dusta rykið af eigin vopnum í baráttu sinni fyrir aðild Íslands að ESB. Stríð þeirra er dæmt til að mistakast.

Nú eru sex ár frá því að alþingi samþykkti samhljóða þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland (13. apríl 2016). Hún er í 11. liðum og þar er hvergi minnst á Evrópusambandið eða aðild að því. Í 5. lið segir að þjóðaröryggisstefnan feli í sér: „Að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði.“

Ef til vill reyndu ESB-aðildarsinnar í hópi þingmanna á þessum tíma að fá lið í þjóðaröryggisstefnuna um nauðsyn þess að efla samvinnu við ESB um öryggis- og varnarmál eða að það yrði beinlínis sagt þar að aðild að ESB mundi efla þjóðaröryggi Íslands. Hafi slíkum sjónarmiðum verið hreyft hlutu þau ekki framgang við endanlegan frágang stefnunnar enda engin rök fyrir þeim.

Esbfani.2e16d0ba.fill-1200x630-c100.watermarkSigmundur Ernir og Þorsteinn Pálsson nota málgagn sitt, Fréttablaðið, til að hamra á nauðsyn þess að samstaðan að baki þjóðaröryggisstefnunni sé rofin í þágu ESB-aðildarsjónarmiða. Á alþingi njóta þeir fulltingis flokksformanna sinna, Loga Einarssonar (Samfylkingu) og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur (Viðreisn). Þeir skipa sér auk þess á sinn hátt við hlið Ögmundar Jónassonar sem vill rjúfa sáttina um þjóðaröryggisstefnuna til að Ísland segi sig úr NATO og rifti varnarsamningnum.

Að óreyndu hefði mátt ætla að sama gerðist hér á stjórnmálavettvangi hér og varð innan NATO og ESB þegar þjóðir treystu samstöðu sína, einhentu sér í herða á eigin vörnum og skera á viðskipta- og stjórnmálasamskipti við Rússa. Íslensk stjórnvöld eiga aðild að öllum þessum ákvörðunum. Ekki er unnt að benda á eitt einasta tilvik sem sýnir að það skaði þjóðaröryggi Íslendinga á þessum örlagatímum að standa utan ESB.

Skrif Sigmundar Ernis eru ekki um efni málsins heldur einkennast af óvild í garð stjórnarflokkanna, einkum VG og Sjálfstæðisflokksins. Ritstjórinn setur sjálfan sig yfirlætisfullur á dómarabekk og telur þá sem ekki „sjá ESB-ljósið“ andstæðinga frelsis og réttarríkisins. Krókódílstár hans vegna Sjálfstæðisflokksins dæma sig sjálf og málstað hans.

Samhliða hræsni ritstjórans vegna Sjálfstæðisflokksins býsnast fyrrverandi ritstjórinn yfir því að VG hafi ekki verið með hjartað á réttum stað þegar ESB-aðildarumsóknin var samþykkt sumarið 2009, hún hafi þess vegna farið í handaskolum. Umsóknin rann hins vegar út í sandinn vegna ósannindanna sem voru á borð borin af ESB-aðildarsinnum, þeim entist ekki erindið.

Það er ómaklegt og vanvirða við málstað Úkraínumanna og samstöðuna þeim til stuðnings og þjóðaröryggisstefnu Íslands á örlagastund að ESB-aðildarsinnar hefji að nýju sundrungariðju sína án málefnalegra ástæðna.