20.7.2022 10:15

Bensínstöðvabrask borgarstjóra

Allt frá fyrsta degi hefur markvisst verið reynt að þagga niður opinberar umræður um þessa samninga - bensínstöðvabrask borgarstjóra í skjóli loftslagsmarkmiða.

Í janúar 2022 birti Morgunblaðið frétt um samninga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við Festi hf. vegna ráðstöfunar á N1-bensínstöðvarlóð við Ægisíðu.

Frásögn blaðsins varð til þess að 21. janúar 2022 gagnrýndi Dagur B. blaðið harðlega og sagði „mikilvægt fyrir almenning að átta sig á því að það þarf að taka öllum fréttum Morgunblaðsins og framsetningu þeirra með fyrirvara í aðdraganda kosninga.“

Tilkynnt var formlega 11. febrúar 2022 um lyktir samninga um lokanir bensínstöðva og sagt að þær væru í samræmi við loftslagsstefnu borgarinnar, þeim ætti að fækka í íbúðahverfum og minnka landrými sem þær þyrftu.

Ótrúlega lítið var minnst á þetta mál í aðdraganda kosninganna 14. maí. Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Miðflokksins, gagnrýndi vinnubrögð borgarstjóra á sínum tíma. Aðrir borgarfulltrúar virtust sýna málinu lítinn áhuga.

Nú eftir kosningarnar hefur áfram lítil athygli beinst að þessu máli þar til Trausti Breiðfjörð Magnússon, annar tveggja borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, birti grein föstudaginn 15. júlí á vefsíðunni visir.is undir fyrirsögninni: Borgin stendur þétt með olíufélögunum og gefur þeim grænt ljós á lóðabrask.

Þar segir frá því að viku fyrr hafi verið lögð fram tillaga í borgarráði um „aðilaskipti“ á Skeljungs-lóðinni Birkimel 1. „Óskað var eftir því að í stað Skel fjárfestingafélags hf, tæki Reir þróun ehf við réttindum og skyldum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni,“ segir í greininni.

1283371Kynning Reykjavíkiurborgar á reitnum að Birkimel 1.

Trausti segir að 25. júní 2021 hafi borgin og Skeljungur (nú Skel fjárfestingarfélag hf.) gert samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. Við lokun bensínstöðvarinnar fengi Skel að byggja íbúðir á lóðinni með „sérstökum fríðindum“ frá borginni. Hvorki yrði greitt innviða- né byggingarréttargjald. Þetta gildi í öllum samningum borgarinnar við olíufélögin, þau njóti sérstakra fríðinda fyrir að loka bensínstöðvum og byggja.

Þetta sé ekki nóg segir Trausti heldur megi olíufélögin einnig „framselja byggingarréttinn til annarra aðila“. Þannig fái nú Reir þróun ehf. sömu undanþágu og Skeljungur frá innviða- og byggingarréttiargjaldi. Telur Trausti þetta „stuðla að stórfelldu lóðabraski væntanlega með tilheyrandi stórhagnaði“. Kjörnir fulltrúar fái engar upplýsingar hvaða verð Skel fjárfestingafélag fær greitt fyrir aðilaskiptin. Um „trúnaðarmál“ sé að ræða.

Trausti undrast hvernig flokkar sem kenni sig við jafnaðarmennsku geti staðið að baki slíkum samningum. Fleiri hljóta að undrast málatilbúnaðinn en annar borgarfulltrúi sósíalista. Allt frá fyrsta degi hefur markvisst verið reynt að þagga niður opinberar umræður um þessa samninga.

Í aðdraganda kosninganna spáði Morgunblaðið því í leiðara að bensínsöðvabrask borgarstjóra drægi ófagran dilk á eftir sér. Grein Trausta Breiðfjörð Magnússonar sýnir að viðvörunarorðin voru réttmæt. Í skjóli loftslagsmarkmiða var samið um fríðindi við olíufélögin og leynd látin hvíla yfir öllu. Nú þegar olíufélög breytast í fasteignafélög og taka að selja fríðindalóðirnar til annarra fasteignafélaga er réttmætt að tala um lóðabrask með leynd og leyfi borgarráðs.