22.7.2017 10:23

Benedikt fetar í fótspor Steingríms J.

Títuprjónastungum smáflokka og talsmanna þeirra í Sjálfstæðisflokkinn má ef til vill fagna sem lífsmarki innan flokkanna en að lifa fyrir slíkt er lítils virði til lengdar.

Áður hefur hér verið vikið að grein sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra ritaði í Fréttablaðið gegn krónunni og með evrunni. Taldi hann sig þar feta í fótspor 19 fjármálaráðherra innan ESB. Röksemdafærslan var öll reist á sandi og sýndi best að ráðherrann telur þrengt að stefnu flokks síns í málinu en í janúar samdi ráðherrann að falla frá framkvæmd hennar í stjórnarsáttmála sem hann gerði við Sjálfstæðisflokk og Bjarta framtíð.

Til að finna fyrirmynd hefði Benedikt ekki átt að nefna 19 fjármálaráðherra evru-landa heldur  Steingrím J. Sigfússon, fyrrv. formanns VG og fjármálaráðherra. Hann barðist að eigin sögn gegn aðild Íslands að ESB fyrir kosningarnar vorið 2009 en samþykkti ESB-aðildarumsókn 16. júlí 2009. Fyrir þessa kúvendingu fékk Steingrímur J. fjármálaráðherraembættið. Benedikt hefur í einu og öllu fetað í fótspor Steingríms J. og heldur meira að segja dauðahaldi í skattana hans. 

Eitt er að flokksformaður telji sig nauðbeygðan til að minna á að hann hafi ekki gleymt kosningaloforðum þótt hann hafi svikið þau annað að ritstjórar blaða sem vilja væntanlega að þeir séu teknir alvarlega fagni furðulegum málflutningi flokksformannsins. Þetta gerði Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, föstudaginn 21. júlí og Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, laugardaginn 22. júlí.

Kolbrún telur evru-andvarp fjármálaráðherra til marks um að hann ætli ekki „að sitja lengur þegjandi undir ásökunum um að vera taglhnýtingar Sjálfstæðisflokksins“.  Telur hún líklegt að það verði Viðreisn, flokki Benedikts, til lífs að hann hampi evrunni á kostnað krónunnar en segir ekki líklegt að tillaga hans „komi til framkvæmda í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiðir“.  Þar sé „áberandi tryggð við hinn óstöðuga gjaldmiðil“. 

Skilja má orð Kolbrúnar á þann veg að hún telji orð Benedikts annað og meira en „brölt“ sem Sjálfstæðismenn stöðvi. Kolbrún ætti að svara innan hvaða flokks utan Viðreisnar og hugsanlega Samfylkingar evru-aðdáun Benedikts nýtur stuðnings. Ritstjórinn sem einnig fjallar á jákvæðan hátt um auðlindagjalds-brölt Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, ráðherra Viðreisnar, skuldar lesendum sínum skýringu á hvar Viðreisn getur komið stefnumálum sínum í framkvæmd. 

Títuprjónastungum smáflokka og talsmanna þeirra í Sjálfstæðisflokkinn má ef til vill fagna sem lífsmarki innan flokkanna en að lifa fyrir slíkt er lítils virði til lengdar.

Kristín Þorsteinsdóttir ber lof á dirfsku Benedikts Jóhannessonar í Fréttablaðinu laugardaginn 22. júlí. Svipaður lofsöngur var sunginn um Steingrím J. fyrir að svíkja eigin stefnu í ESB-málinu fyrir ráðherraembætti. Kristín segir meðal annars:  „Á meðan er hin ofursterka króna farin að bíta ferðaþjónustuna svo um munar. Ferðamenn láta ekki endalaust bjóða sér okurverð.“

Þetta er einkennileg fullyrðing í lofræðu um ráðherra sem ætlar að stórhækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Þá er hún einnig einkennileg í ljósi þess að umferð um Keflavíkurflugvöll jókst um tæp 50% fyrri hluta árs 2017.

Grein aðalritstjórans lýkur á þessum orðum:

„Útspil Benedikts er því í senn djarft og óvenjulegt. Þá er bara að fylgja orðum eftir með athöfnum, en ljóst er að samstarfsflokkurinn og stjórnarsáttmálinn sníða þröngan stakk í þeim efnum.“

Veit Kristín ekki að Benedikt Jóhannesson samdi sig frá evrunni og kaus í staðinn að verða fjármálaráðherra? Sé eitthvað „djarft og óvenjulegt“ við orð Benedikts nú um evruna er það hvort hann sé að skrifa sig frá eigin embætti til að geta utan rikisstjórnar barist fyrir stefnumáli sínu. Gerði hann það hætti hann að feta í fótspor Steingríms J.