12.10.2017 9:00

Benedikt bylt í eigin flokki

Fréttir hermdu 19. september, fjórum dögum eftir fall ríkisstjórnarinnar, að allt logaði innan Viðreisnar og sterkar raddir væru um nauðsyn þess að skipta um formann.

Benedikt Jóhannesson sagði af sér formennsku í Viðreisn, flokknum sem hann stofnaði, vegna fylgisleysis flokksins og ummæla sem féllu í sjónvarpssamtali að kvöldi mánudags 9. október. Hann sagði á FB-síðu sinni þriðjudaginn 10. október:

„Í viðtalsþætti í gær notaði ég afar klaufaleg ummæli um tilefni stjórnarslitanna, þegar ég sagði að enginn myndi lengur um hvað málið snerist. Þar var ég að vísa til meðferðar málsins í stjórnsýslunni síðastliðið sumar, en sannarlega ekki til þeirra brota að sem að baki lágu.

Það er fjarri mér að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir. Öllum ber að tala af virðingu og auðmýkt í þessu samhengi og ég bið alla aðila málsins innilega afsökunar.

Það er óásættanlegt að slík mál séu hjúpuð leyndarhyggju og það er skýr skoðun mín og Viðreisnar að upplýsa um alla þætti málsins. Hefði það sjónarmið verið haft í heiðri hefðu allar upplýsingar legið á borðinu frá upphafi. Ég ítreka hve leitt mér þykir að hafa talað með þessum hætti.“

Miðvikudaginn 11. október minnti Benedikt á það á FB að Viðreisn nyti lítils stuðnings í skoðanakönnunum og sagði síðan:

„Við horfum líka af miklum metnaði fram á veginn. Það má ekki gerast að rödd frjálslyndisins þagni á Alþingi. Þess vegna ákvað ég í gærkvöldi í samráði við fjölskyldu mína að víkja úr embætti formanns. Málefni Viðreisnar eru miklu mikilvægari en mín staða. Í dag var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kjörin formaður í minn stað á fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar.“

Fréttir hermdu 19. september, fjórum dögum eftir fall ríkisstjórnarinnar, að allt logaði innan Viðreisnar og sterkar raddir væru um nauðsyn þess að skipta um formann. Þá urðu þeir ofan á sem töldu flokkinn sigurstranglegan með áhersluna á stöðugleika í gjaldmiðilsmálum – án þess þó að nefna evruna.

Það ríkti greinilega mikil gleði í höfuðstöðvum Viðreisnar við Ármúla eftir að Benedikt hafði verið ýtt til hliðar.

Fylgið jókst ekki með þessa stefnu að leiðarljósi og þá lá beint við að skipta um forystumann í von um betri árangur. Er ólíklegt að annarra flokka menn hefðu gripið til jafn sterkra orða um framgöngu Benedikts í samtalinu í ríkissjónvarpinu og flokkssystur hans, sem nú hafa flokkinn í hendi sér, gerðu.

Áherslur Viðreisnar í kosningabaráttunni breytast við þetta. Ábendingar á góða fjármálastjórn og lága vexti hverfa fyrir lofsyrðum um afrek Þorgerðar Katrínar. Sjálf minnti hún strax á eigin hlut í sjómannaverkfallinu og taldi aðra stjórnmálamenn ekki hafa sýnt sömu staðfestu. Hún gefur svo til kynna að hún hafi meiri skilning á því hvað bændum sé fyrir bestu en forystumenn þeirra.

Margt bendir til þess að óþol Þorgerðar Katrínar eftir að komast til meiri valda í Viðreisn og íslenskum stjórnmálum ráði mestu um niðurstöðuna innan Viðreisnar – þar voru leikreglur teygðar og togaðar til að þetta yrði.

Bandalagið sem Benedikt myndaði við Óttarr Proppé strax 30. október 2016, daginn eftir kosningar, hélst alla leiðina inn í ríkisstjórn. Báðir koma þeir illa frá ráðherrastörfunum og flokkar þeirra eru í molum. Kenning Þorsteins Pálssonar, aðalráðgjafa ráðgjafaráðs Viðreisnar, um að stjórnarslitin séu Sjálfstæðisflokknum að kenna af því að hann treysti ekki fjármálastjórn Benedikts verður sífellt fráleitari. Byltingin gegn Benedikt var í hans eigin flokki.