2.8.2021 10:15

Belti og braut í molum

Íslensk stjórnvöld standa ekki frammi fyrir neinum kostum varðandi kínversku BRI-áætlunina. Hún er dauð í upphaflegri mynd.

Eftir fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í Höfða 4. september 2019 lýsti Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, þakklæti til íslenskra stjórnvalda fyrir að hafna þátttöku í kínversku alheims fjárfestingar- og framkvæmdaáætluninni sem kennd er við belti og braut (e. Belt and Road Initiative, BRI). Samdægurs leiðrétti Guðlaugur Þór varaforsetans, íslensk stjórnvöld hefðu hvorki hafnað né samþykkt þátttöku í kínversku áætluninni. Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, sparaði ekki stóru orðin frekar en endranær og sakaði Pence um „meinfýsinn rógburð“ og „falsfréttir“.

Uppákoman er nú ekki annað en sögulegt atvik sem dregur athygli að spennu í samskiptum Bandaríkjamanna og Kínverja.

Í franska blaðinu Le Figaro birtist nýlega úttekt á BRI-áætluninni sem reist er á skýrslu sem greiningar- og ráðgjafarfyrirtækið Baker McKenzie birti vorið 2021. Niðurstaðan er að kínversku áformin séu í molum vegna fjárskorts.

Í Nígeríu leita yfirvöld nú í örvæntingu að einum milljarði dollara. Kínabanki og Sinosure, útflutnings- og greiðslutryggingaþjónusta Kína, höfðu lofað fé til að leggja 615 km langa olíuleiðslu í landinu. Kínverjar hafa hins vegar ekkert lagt af mörkum og ríkisolíufélagið NNPC á í miklum vanda.

Árið 2017 var reiknað með að kínverskir bankar mundu lána 11 milljarða dollara til orku- og samgöngumannvirkja í Afríku en árið 2020 hafði þessi fjárhæð lækkað í 3,3 milljarða.

117494Hluti „brautarinnar út í bláinn“ í Svartfjallalandi – leiddi næstum til þjóðargjaldþrots.

Í Svartfjallalandi tala menn um „brautina út í bláinn“, dýrustu hraðbraut í heimi eftir að lagður var 41 km fyrir milljarðs dollara lán frá Kína. Verkinu er ólokið og til að forðast vanskil náði ríkisstjórn landsins nýlega samningi við þrjá vestræna banka. Kínverjar eiga veð í landi fái þeir ekki lánið endurgreitt.

Höfnin í Hambantota á Srí Lanka er gjarnan nefnd til marks um hvernig Kínverjar bregðast við vanskilum. Þeir fara nú með hafnarstjórn í 99 ár á hernaðarlega mikilvægum stað við Indlandshaf.

Áherslur Kínverja við framkvæmd BRI hafa breyst bæði vegna fjárskorts heima fyrir og vegna vandræða við mannvirkjagerðina. Nú er neira talað um stuðning við grænar-, stafrænar- og heilsufars-brautir en ekki vegi, brýr, járnbrautir og siglingaleiðir. Árleg útgjöld Kínverja urðu mest vegna BRI árið 2015, 125 milljarðar dollara, en í fyrra var fjárhæðin 47 milljarðar dollara.

Stóru iðnríkin sem mynda G7-hópinn ákváðu á leiðtogafundi sínum í júní 2021 að hrinda í framkvæmd áætlun sem heitir á ensku Build Back Better World, B3W –Endurreisum betri heim. Þetta er svar við BRI-áætlun Kínverja – vestræn aðstoð undir forystu Bandaríkjamanna við fjárhagslega veikburða ríki á grundvelli hágæðasamstarfs og gagnsæis.

B3W-áætlunin nær til fjögurra meginsviða: loftslagsmála, heilbrigðismála, stafrænnar tækni og jafnréttismála. Allt frá 2013 hafa G7-ríkin litið kínversku BRI-áætlunina áhyggjuaugum, með henni vildu Kínverjar ná stjórnmálaítökum um heim allan.

Íslensk stjórnvöld standa ekki frammi fyrir neinum kostum varðandi kínversku BRI-áætlunina. Hún er dauð í upphaflegri mynd.