4.12.2022 10:40

BBC tekur sér tak

Stjórnarformaður BBC segir að hann og Tim Davie útvarpsstjóri hafi samið tíu punkta áætlun um óhlutdrægni, þjálfun gegn slagsíðu og auk þess verði fréttatengd efnistök rýnd.

Richard Sharp, stjórnarformaður breska ríkisútvarpsins, BBC, segir í viðtali við The Sunday Times nú um helgina að innan stofnunarinnar gæti liberal bias, það er að hún sé ekki óhlutdræg heldur sé vinstri slagsíða á því hvernig starfsmenn hennar nálgist viðfangsefni sín.

Stjórnarformaðurinn segir að hann og Tim Davie útvarpsstjóri hafi samið tíu punkta áætlun um óhlutdrægni, þjálfun gegn slagsíðu og auk þess verði fréttatengd efnistök rýnd í viðleitni yfirstjórnarinnar til að takast á við vandamálið.

Hann gaf til kynna að dregið yrði úr miðstýringu og vald til töku ákvarðana flutt frá London til svæðisbundinna ritstjórna á Englandi, í Skotlandi og Wales. Þar með yrði spornað gegn hjarðhegðun sem mótaðist af ríkjandi sjónarmiðum í London.

Hann segir að Brexit, úrsögn Breta úr ESB, hafi komið BBC algjörlega í opna skjöldu. Þá segir hann: „Ég er ekki að ástæðulausu með kveikt á Bloomberg-sjónvarpinu hérna. Það er frábært. Við verðum að setja markið hærra.“

Þá sagði hann:

„Fréttamenn og fréttastjórar BBC eru fyrsta flokks en innan stofnunarinnar skilja menn ekki viðskipti og fjármál eins vel og þeir ætttu að gera. Við verðum að útskýra þau mál betur, einkum á tímum þegar verðbólga neyðir stjórn og stjórnarandstöðu til að taka mjög erfiðar ákvarðanir.“

_116372172_bbc-chair-oneRichard Sharp, stjórnarformaður BBC.

Stjórnendur BBC standa sjálfir frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um fjármál. Kröfur eru um að afnotagjaldið verði afnumið, það er 159 pund (um 28.000 ísl. kr.) og færir stofnuninni 3.7 milljarða punda (664 milljarða ísl. kr.) á ári, eða 74% af tekjum BBC. Vegna frystingar á afnotagjaldinu eru tekjur BBC 30% minni núna en fyrir áratug.

Richard Sharp, sem starfaði áður fyrir fjármálafyrirtækin Goldman Sachs og JP Morgan, segir að greiðendur afnotagjaldsins fái mikið fyrir fé sitt.

Það sem að ofan segir birtist á vefsíðunni The Telegraph sunnudaginn 4. desember. Allt sem sagt er um hlutdrægni BBC hittir í mark hér sé litið til ríkisútvarpsins. Ástandið er þó verra hér en hjá BBC.

Á COVID-tímanum olli uppnámi í Bretlandi þegar Dominic Cummings, náinn ráðgjafi Boris Johnsons forsætisráðherra, var sakaður um að brjóta sóttvarnareglur. Þá hóf einn helsti fréttamaður BBC, Emily Maitlis (sem nú starfar annars staðar) fréttaskýringaþátt með því að segja að the country - fólkið – gæti séð að Cummings hefði brotið sóttvarnareglur og væri „í áfalli yfir að ríkisstjórnin“ sæi það ekki. Sharp nefndi þetta sem dæmi um hlutdræga fréttamennsku.

Hér nægir að bend á fréttir um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka til að sjá óteljandi dæmi um hvernig fréttamenn ríkisútvarpsins nálgast viðfangsefni sitt með fullyrðingum um að þeir tali eins og „fólkið“, spyrji eins og „fólkið“ vilji eða séu í raun „fólkið“. Lýðskrum er til í fréttamennsku eins og stjórnmálum.

Það er brýnt að stjórn ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri sýni viðleitni í þá átt að koma til móts við rökstudda gagnrýni á efnistökin í ríkisútvarpinu.