21.10.2023 11:22

BBC tekið til bæna

Menn geta gert sér í hugarlund hvílíkt ramakvein kæmi frá starfsmönnum ríkisútvarpsins væri útvarpsstjóri kallaður fyrir þingflokksfund eða fundi. 

Breska ríkisútvarpið, BBC, sætti harðri gagnrýni fyrir að hafa það sem meginreglu að kalla hryðjuverkamenn Hamas militants sem er íslenskað með orðunum ófriðarseggur eða vígamaður.

Forseti Ísraels, Isaac Herzog, var meðal þeirra sem gagnrýndu BBC. Sagði forsetinn það „viðurstyggilega“ stefnu hjá útvarpsstöðinni að kalla Hamas militants.

Föstudaginn 20. október skýrði yfirstjórn BBC frá því að stöðin hefði breytt meginreglu sinni um lýsingu á Hamas, framvegis yrði sagt að um væri að ræða samtök „sem breska ríkisstjórnin og aðrir lýstu sem hryðjuverkasamtökum“.

Í frétt The Telegraph um stefnubreytinguna segir að skilja megi ákvörðunina sem svo að áfram megi tala um militants en það sé ekki meginregla. Í fréttinni sagði jafnframt að útvarpsstjóri BBC, Tim Davie, myndi koma fyrir 1922-nefnd þingmanna Íhaldsflokksins (í raun þingflokk hans) miðvikudaginn 25. október til að ræða áhyggjur þingmanna vegna vinstri slagsíðu á BBC.

TELEMMGLPICT000339296453_16978277017940_trans_NvBQzQNjv4BqRo0U4xU-30oDveS4pXV-VpwnSGRe9-02fQXnA1QxazkTim Davie, útvarpsstjóri BBC.

Spáð er að hart verði sótt að Davie vegna þess hvernig BBC hefur fjallað um árás Hamas á Ísrael og þar með vangaveltur fréttamanna hennar um að Ísraelar hafi átt hlut að nýlegri sprengingu við sjúkrahús á Gazasvæðinu. Þegar fyrstu fréttir bárust af sprengingunni sagði fréttamaður BBC að líklega stæðu Ísraelar að baki henni. Talið er að efnistök BBC á sprengingunni verði helsta umræðuefnið á fundi útvarpsstjórans með bresku íhaldsþingmönnunum. Fyrir utan þá gagnrýni að BBC neiti að kalla hryðjuverkamenn hryðjuverkamenn.

1922-nefndin kemur saman hvert miðvikudagskvöld sem breska þingið situr að störfum. Venjulega flytur einhver ráðherra stutta ræðu á fundi nefndarinnar og situr síðan fyrir svörum. Gestir utan þingflokksins koma stundum til fundarins og má þar til dæmis nefna Bill Gates, stofnanda Microsoft, og Andrew Bailey, seðlabankastjóra Breta.

Á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta eru enn ríkari kröfur en ella gerðar til flutnings frétta í miðlum sem kostaðir eru af skattfé almennings eða með opinberri gjaldtöku eins og BBC.

Menn geta gert sér í hugarlund hvílíkt ramakvein kæmi frá starfsmönnum ríkisútvarpsins væri útvarpsstjóri kallaður fyrir þingflokksfund eða fundi til að svara fyrir orðnotkun eða fréttaflutning RÚV.

Hér hefur markvisst verið haldið að almenningi að fréttastofu RÚV eigi helst að líkja við helg vé, hana sé ekki aðeins ómaklegt að gagnrýna heldur sé það jafnan gert af annarlegum hvötum.

Gagnrýnisskortur af hálfu kjörinna fulltrúa almennings og trúnaðarmanna þeirra í stjórn RÚV hefur leitt til uppdráttarsýki innan ríkisútvarpsins sem verður sífellt sjálfhverfari stofnun og fjarlægari meginstraumum samtímans eins og sést best á fréttavali og viðmælendum fréttamanna.

Auglýsingin um að grunnstoð RÚV, gamla gufan, sé fyrir forvitna minnir á að forvitnilegast er hvaða ár endurtekinn útvarpsþáttur var fyrst fluttur.