1.8.2021 10:42

Baudenbacher um EFTA-dómstólinn

Sé þessi ályktun dómsforsetans fyrrverandi rétt hefur verið vegið að tveggja stoða kerfinu sem er grunnþáttur EES-samstarfsins.

Í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 31. júlí segir Carl Baudenbacher sem var forseti EFTA-dómstólsins frá 2003 til 2017 að undir forsæti Páls Hreinssonar frá 2018 hafi EFTA-dómstólinn sett niður vegna þjónkunar við norsk stjórnvöld auk þess sem Páll hafi tapað sjálfstæði sínu sem dómari með því að skrifa álitsgerð fyrir ríkisstjórn Íslands haustið 2020 um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaraðgerða.

Grein sinni lýkur Baudenbacher á þessum orðum:

„Mér er ljóst að það er óvanalegt að fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, sem starfandi er á eigin vegum, skrifi grein sem þessa. En óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir. Eins og franski tilvistarstefnuheimspekingurinn Jean-Paul Sartre skrifaði: „Öll orð hafa afleiðingar. Sama gildir um alla þögn.““

Undir það skal tekið að grein Baudenbachers er óvenjuleg. Eitt er að gagnrýna niðurstöðu EFTA-dómstólsins og færa málefnaleg rök fyrir að standa verði gegn þrýstingi ríkisstjórna einstakra landa á dómara, annað að vega að forseta dómstólsins á þann veg sem gert er í greininni.

778169Sagan geymir fjölmörg dæmi um að áhrifamiklir og kappsamir forystumenn telji eftirmenn sína ganga fram af of mikilli linkind og undirgefni, ekki standa nógu fast gegn öflum sem þeir töldu sér og stofnun sinni óvinsamleg í forystutíð sinni. Baudenbacher hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að norsk yfirvöld hafi sýnt sér og EFTA-dómstólnum óvild auk þess að standa í vegi fyrir endurbótum á dómaraskipan, fyrir þá skipti mestu að EFTA-dómarar standi vörð um hagsmuni Noregs í störfum sínum.

Í grein sinni laugardaginn 31. júlí nefnir Baudenbacher dæmi sem hann segir sýna hve lágt sé lagst til að fara að vilja „norskra kerfiskalla“. Hér verður ekki lagður dómur á skoðanir Baudenbachers á þeim málum sem hann nefnir. Á hinn bóginn er ástæða til að staldra við þessa ályktun hans:

„EFTA-dómstóllinn hafði umtalsverð áhrif á dómstóla Evrópusambandsins áður fyrr. Nú hafa þessir dómstólar nánast hætt öllum réttarfarslegum samskiptum við EFTA-dómstólinn. Þetta hefur veikt stöðu EFTA-stoðarinnar gagnvart ESB. Hæpið er að úrskurður eins og sá sem kveðinn var upp í Icesave-málinu árið 2013 hlyti samþykki Evrópusambandsins.“

Sé þessi ályktun dómsforsetans fyrrverandi rétt hefur verið vegið að tveggja stoða kerfinu sem er grunnþáttur EES-samstarfsins. Við gerð skýrslu um EES-samstarfið snemma árs 2019 var það eindregin niðurstaða að EFTA-dómstóllinn nyti ótvíræðrar virðingar innan ESB, þar með styrktu álit hans og dómar allt stjórn- og stofnanakerfi EES-samstarfsins.

Í úrbótatillögum skýrslunnar sem birtist haustið 2019 sagði meðal annars:

„EES/EFTA-ríkjunum á að vera kappsmál að styrkja tveggja stoða kerfið og standa vörð um trúverðugleika stofnana þess. Kerfið þrífst ekki nema EFTA-stoðin sé öflug. Tryggja ber að EFTA-dómstóllinn njóti áfram virðingar og til hans sé borið traust innan EES/EFTA-stoðarinnar og utan.“

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er ekki unnt að láta gagnrýni Baudenbachers sem vind um eyru þjóta. Mikið er í húfi.