30.3.2023 10:48

Barist við verðbólgu

Sagan kennir að verðbólgan verður ekki sigruð nema allir leggist á eitt gegn henni. Þess er þörf núna.

Sama dag og ríkisstjórnin kynnti fjármálaáætlun sína til næstu fimm ára (29. mars) sátu nokkrir viðmælendur undir spurningum stjórnanda Kastljóss ríkissjónvarpsins og ræddu vandræðin við að eignast húsnæði vegna krafna um eigið fé, hárra vaxta og verðtryggingar. Málið var lagt upp eins og um eitthvert óviðráðanlegt ástand væri að ræða enda ekki minnst á höfuðatriði málsins, það er að takast á við verðbólguna og sigrast er á henni.

Í kynningu ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætluninni til 2028 segir að þar sé að finna þá stefnu sem stjórnin ætlar að framkvæma á markvissan hátt í ríkisfjármálunum „til að sporna gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda.“ Eins og jafnan áður er deilt um hvort nógu langt sé gengið eða hvort farin skuli önnur leið. Skiptar skoðanir um það eru fastur liður þegar gripið er til aðgerða af þessu tagi.

Nú er áratugur brátt liðinn frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð fjármálaráðherra og allan þann tíma hefur verið haldið þannig á fjármálum ríkisins að til heilla hefur horft. Losað var um gjaldeyrishöft á farsælan hátt og brugðist við efnahagslegum umskiptum og óvissu vegna heimsfaraldursins af skynsemi og við það miðað að atvinnu- og efnahagslíf tæki skjótan kipp upp á að faraldrinum loknum. Allt hefur það gengið eftir.

20230329-fjarlog-24-28-4-1-Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnir fjámálaáætlun 2024-2028 (mynd: stjórnarráðið/Eyþór).

Eftirköst faraldursins og innrás Rússa í Úkraínu stuðla að verðbólgu um heim allan. Hraði hagvaxtar hér og sinnuleysi í húsnæðismálum, einkum vegna rangra ákvarðana stjórnenda Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum, kalla á snarpari gagnaðgerðir til að kveða niður verðbólguna en reiknað var með í fyrstu.

Ríkisstjórnin segir í kynningu sinni á fjármálaáætluninni að hér hafi síðustu misseri „náðst mikill og skjótur árangur við að bæta afkomu ríkissjóðs“ og útlit sé „fyrir að staðan í ár verði betri en bjartsýnustu sviðsmyndir fyrri áætlana bentu til“.

Til marks um þetta er að áætlað er „að frumjöfnuður ríkissjóðs verði 74 ma. kr. betri í ár en gert var ráð fyrir í fjárlögum“. Hann verði því jákvæður um 24 ma. kr. gangi áætlanir eftir. Í þessum orðum felst að tekjur ríkissjóðs í ár verða hærri en útgjöld sjóðsins að frátöldum vaxtatekjum og -gjöldum. Þetta hefur ekki gerst síðan 2019 og næst þessi árangur fyrr en ráðgert var. Verður batinn til þess að ríkissjóður heldur nokkuð aftur af eftirspurn og þar með verðbólguþrýstingi árið 2023.

Kjarasamningarnir sem gerðir voru á almenna markaðnum í desember 2022 voru aðeins til eins árs og þeim var lýst sem aðhlaupi að samningum til lengri tíma sem unnið yrði að í ár. Breyturnar sem við er að miða í þeirri vinnu birtast hver af annarri. Sagan kennir að verðbólgan verður ekki sigruð nema allir leggist á eitt gegn henni. Þess er þörf núna.